Krefst fundar um verðskrárhækkanir
Jón Bjarnason, þingmaður VG í Norðvesturkjördæmi, hefur sent fjárlaganefnd bréf þar sem farið er fram á fund í nefndinni til að ræða allt að 40% hækkun á dreifingarkostnaði raforku til neytenda frá 1. janúar 2009. Þessi gríðarlega hækkun var ekki kynnt við umræður afgreiðslu fjárlaga fyrir nokkrum dögum síðan.
Jón fer fram á að hækkunin komi ekki til framkvæmda fyrr en Alþingi hefur fjallað um málið í fjárlaga- og iðnaðarnefnd.
Hækkunin kemur til viðbótar því að framlög til jöfnunar orkuverðs í strjálbýli hafa skerst að raungildi undanförnum árum, auk þess sem niðurgreiðsla til rafhitunar á svokölluðum köldum svæðum voru skornar niður um 200 milljónir króna á fjárlögum fyrir árið 2009.
Samtals getur því verið um að ræða um tuga prósenta hækkun á rafmagnskostnaði heimila, einkum til sveita.
Rétt er að minna á að RARIK er þjónustustofnun í 100% eigu ríkisins en ríkisstjórnin hefur einmitt hvatt til þess að verðskrárhækkunum verði haldið í lágmarki til að vinna gegn verðbólgu.
Fréttatilkynning
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.