Kotið í Hegranesi til sýnis á laugardaginn
Í tilefni af 20 ára afmæli fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga eru allir boðnir velkomnir í Kotið í Hegranesi laugardaginn 15. júlí. Þar verður deildarstjóri fornleifadeildar Byggðasafnsins, Ásta Hermannsdóttir, ásamt teymi bandarískra fornleifafræðinga, og munu þau fræða gesti og gangandi um uppgröftinn.
Leiðsagnir verða á svæðinu klukkan 10 og 12. Bílastæði eru við Lönguborg sem er um það bil miðja vegu á milli afleggjarans í Hegranes (vestan megin) og Hellulands.
Kotið í Hegranesi er fornt smábýli sem starfsfólk Byggðasafnsins er að rannsaka í samstarfi við bandaríska fornleifafræðinga. „Nýlegar rannsóknir á „Kotinu“ í landi Hellulands á Hegranesi hafa leitt i ljós leifar eins elsta íveruhúss sem grafið hefur verið upp í Skagafirði. Um er að ræða lítinn skála, einn þann minnsta sem grafinn hefur verið upp á Íslandi til þessa, sem leyndist undir yngri minjum. Á Kotinu hafa fundist vísbendingar um búskap og sjávarnytjar og benda kolefnisaldursgreiningar til þess að staðurinn hafi byggst um 890 og verið kominn í eyði þegar á 11. öld. Fleiri slík smábýli hafa fundist í Hegranesi og eru þau frábrugðin hefðbundnum landnámsbýlum sem hafa verið rannsökuð til þessa,“ segir Berglind Þorsteinsdóttir, forstöðumaður Byggðasafns Skagfirðinga. Grein um rannsóknina birtist í 21. tölublaði Feykis.
Fyrir áhugasama verður einnig búið að merkja skálann í Glaumbæ á túninu fyrir neðan safnsvæðið þannig að hægt verður að sjá staðsetningu hans og útlínur en stefnt er að því að grafa skálann upp á næstu árum og endurbyggja.
Um fornleifadeildina
Í frétt á vef Byggðastofnunar segirárið 2003 hafi orðið kaflaskil í starfsemi safnsins þegar Fornleifadeild Byggðasafnsins var stofnuð. „Fyrir deildinni fór Guðný Zoëga fornleifafræðingur. Guðmundur Stefán Sigurðarson fornleifafræðingur og Bryndís Zoëga landfræðingur voru síðar ráðin til ýmissa verka.
Með tilkomu fornleifadeildar gafst færi til að efna til fjölbreyttari rannsókna, faglegrar úrvinnslu og betri minjaverndar. Starfsmenn deildarinnar gátu unnið ýmis sérverkefni, t.d. fornleifaskráningar vegna skipulagsvinnu sveitarfélaga og mat á umhverfisáhrifum framkvæmda, fornleifakannanir vegna framkvæmda og neyðarrannsóknir. Þá má nefna sérstaklega stærri rannsóknarverkefni eins og Byggðasögurannsóknir sem voru fyrirferðarmiklar á tímabilinu 2005-2007, Skagfirsku kirkjurannsóknina sem hófst með formlegum hætti 2007 og fornleifarannsókn á jörðinni Skógum í Fnjóskadal sem fór fram á árunum 2011-2012 vegna fyrirhugaðra Vaðlaheiðarganga.
Rannsóknir fornleifadeildarinnar hafa orðið grundvöllur að ýmsu samstarfi í gegnum öll þessi verkefni og rannsóknir deildarinnar og samstarfsaðila hennar hafi skapað mikla þekkingu á þessum 20 árum sem liðin eru frá stofnun hennar. Safnið hefur leitast eftir að miðla þeirri þekkingu með ýmsum hætti, stafrænt og með sýningum, ritum og fyrirlestrum til að ná til sem flestra.
Deildin hefur þannig, auk þess að skapa áhugaverð verkefni sem auðga safnastarfið, einnig skapað ómetanleg verðmæti fyrir Skagfirðinga alla á formi þekkingar á sögu svæðisins.“
Heimild: Facebook-síða Byggðasafns Skagfirðinga
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.