Kosning hafin á Manni ársins á Norðurlandi vestra 2024

Forsíða Feykis tbl 47. 2024
Forsíða Feykis tbl 47. 2024

Eins og undanfarin ár stendur Feykir fyrir kjöri á manni ársins á Norðurlandi vestra. Gefst íbúum á svæðinu og öðrum lesendum Feykis kostur á að velja úr hópi þeirra sem tilnefndir voru af lesendum. Átta tilnefningar bárust sem teknar voru til greina í kjörið.

Hægt verður að greiða atkvæði á vefnum Feykir.is eða senda atkvæði í pósti á: Feykir, Hesteyri 2, 550 Sauðárkróki. Kosningin hófst kl. 16 mánudaginn, 6. janúar og lýkur kl. 12 á hádegi þann 13. janúar.

Tilnefndir eru, í stafrófsröð:

Arnar Skúli Atlason á Sauðárkróki

Arnar er ekki bara góður tryggingasali, íþróttafréttamaður og barþjónn heldur fyrst og fremst frábær manneskja. Ekki þarf að hafa fleiri orð um þennan sóma mann sem er vinur vina sinna og alltaf til í glens og grín.

 

Ásta Ólöf Jónsdóttir á Sauðárkróki

Ásta Ólöf er mikil áhugamanneskja um velferð fatlaðra og afrekaði á þessu ári að safna fyrir hjóli með hjólastólarampi sem ætlað er fyrir fatlaða. Ásta leitaði til einstaklinga, fyrirtæka og félagasamtaka á svæðinu og náði að safna tæpum tveim milljónum á aðeins fimm mánuðum og úr varð að hjólið var tekið til notkunar um miðjan júní. Má þá einnig nefna að Ásta gaf allan peninginn sem hún fékk í afmælisgjöf þegar hún var sextug til Skammtímadvalar til kaupa á útiaðstöðu með kofakaupum. Ásta Ólöf sagði sjálf í viðtali við Feyki á þessu ári að hún fái stundum skrítnar hugmyndir og það sem meira er að hún framkvæmir þær oft líka. En við það er gott að bæta að engin hugmynd er skrítin ef hún gagnast öðrum á jákvæðan hátt eins og hennar hugmyndir og framkvæmdir gera alltaf.

Bjarki Benediktsson á Breiðavaði í A-Hún (Þórarinn Bjarki Benediktsson)

Það er ómetanlegt hvað hann hefur lagt sig fram í mörg ár til að aðstoða bændur við tamningu smalahunda sem er lykilatriði til að auðvelda sauðfjárbændum vinnuna. Hann hefur boðið upp á vikulega smalahundahittinga í reiðhöllinni á veturna, á sumrin má fólk koma til hans og æfa sig og hundana sína á kindunum hans. Hann hefur skipulagt ótal námskeið með alls konar mismunandi þjálfurum og einnig tekið ótal hunda í tamningu. Síðast en ekki síst er hann ásamt hundunum sínum alltaf til í að smala eftirlegukindum, oft við afar krefjandi aðstæður, og skutla þeim til sinna heima. Ofan á allt það er hann hundavinur af lífi og sál og þjálfunaraðferðir hans í samræmi við það, sem er ekki sjálfgefið.

Evelyn Ýr Kunhe á Lýtingsstöðum í Skagafirði

Evelyn Ýr Kunhe fær tilnefningu því hún hefur tekið þátt í margs konar frumkvöðla- og þróunarstarf í ferðaþjónustu í Skagafirði. Einnig fyrir hæfileika sína til að laða fólk til samvinnu svo sem í söngstarfi, nú nýverið sem fararstjóri, ásamt því að skipuleggja söngferð kirkjukórs Glaumbæjarprentakalls á heimaslóð hennar í Þýskalandi.

Greta Clough fjöllistakona á Hvammstanga
Greta hefur verið óþreytandi við að glæða menningarlífið í Húnaþingi vestra með skapandi list sinni í Handbendi Brúðuleikhúsi. Greta stofnaði brúðuleikhúsið árið 2016 og er það eina starfandi atvinnuleikhúsið á Norðurlandi vestra. Greta hefur fengið margar viðurkenningar fyrir störf sína og má þar nefna Eyrarrósina sem hún hlaut árið 2021. Þá hefur hún laðað erlenda listamenn til Hvammstanga til að taka þátt í brúðulistahátíðinni International Puppet Festival sem haldin hefur verið á Hvammstanga síðan 2020.

Jóhanna E. Pálmadóttir - Akri, A-Hún

Jóhanna Erla er frábær leiðtogi og dugmikil til allra verka. Hún útskrifaðist sem textílkennari 1988 og hefur kennt tóvinnu og úrvinnslu á ull síðan 1991. Jóhanna er verkefnastjóri hjá Textílmiðstöð Íslands, sinnir ÓS Textíllistamiðstöð og ýmsum verkefnum sem tengjast íslensku ullinni. Hún hefur sinnt dugmiklu starfi í þágu menningar og lista í Austur-Húnavatnssýslu. Jóhanna tók þátt í að setja Prjónagleðina á laggirnar, er forsprakki á bak við Vatnsdælu á refli en það er myndræn saga af ástum, átökum og erjum, ættarsaga Hofverja í Vatnsdal og gerist á 9.- til 11.öld. Jóhanna fékk einnig fálkaorðuna árið 2019 fyrir störf í þágu safna og menningar í heimabyggð. Árið 2018 fékk hún þann heiður að vera valin sem eitt af verkefnum Afmælisnefndar vegna 100 ára fullveldis Íslands. Þessi upptalning á hennar afrekum er ekki tæmandi og á hún fullt erindi sem Maður ársins á Norðurlandi vestra árið 2024 fyrir sína óeigingjarna vinnu.

María Jóhannsdóttir á Kúskerpi í Skagafirði

María er hugsunarsöm um þá sem minna mega sín í sínu nærumhverfi. Heldur ótrauð áfram og lætur ekkert stoppa sig í þeim verkefnum sem hún tekur sér fyrir hendur. Eins og flestir vita þá er sveitalífið enginn dans á rósum en hvergi annars staðar líður henni betur en innanum kindurnar sínar og kýrnar.

 

Ómar Bragi Stefánsson - Sauðárkróki
Ómar Bragi hefur glatt og sameinað Skagfirðinga nær og fjær með Facebook-síðu sinni „Skín við sólu“ síðustu árin. Hópinn mynda í dag 7.000 Skagfirðingar sem deila myndum og sögum af Skagafirði á jákvæðan hátt. „Þetta hefur lyft umræðu á jákvæðara plan, brottfluttir fengið tækifæri til að minnast æskuslóða og vettvangur fyrir alla til að deila því góða sem er að gerast. Þetta framtak er til fyrirmyndar og ættu fleiri svæði á NV-landi að gera hið sama. Síðan er ómetanleg heimild.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir