Körfuknattleiksdeild Tindastóls semur við leikmenn
Í dag, á Gránu, skrifaði körfuknattleiksdeild Tindastóls undir samninga við nokkra leikmenn. Allt eru þetta kunnugleg andlit og sagði Dagur Þór Baldvinsson, formaður körfuknattleiksdeildar Tindastóls, að stefnan væri að vera með sama lið og var, eða svona því sem næst.
Pétur Rúnar Birgisson skrifaði undir þriggja ára samning, Sigurður Þorsteinsson skrifaði undir tveggja ára samning og Sigtryggur Arnar Björnsson skrifaði undir eins árs samning. Baldur Þór Ragnarson kemur einnig aftur að þjálfa en hann hafði þegar skrifað undir eins árs samning.
Einnig var skrifað undir samninga í kvennaflokki og sagði Dagur að stefnan væri að halda áfram að styrkja liðið og halda áfram þeirri uppbyggingu sem hefur verið í kvennaflokki undanfarin ár. Þær sem skrifuðu undir fyrir næsta tímabil voru Anna Karen Hjartardóttir, Eva Rún Dagsdóttir, Hildur Heba Einarsdóttir, Klara Sólveig Björgvinsdóttir og Kristín Halla Eiríksdóttir. Ingigerður Hjartardóttir hafði áður skrifað undir samning fyrir næsta tímabil.
Dagur sagði að það væri enn verið að skoða leikmenn fyrir bæði lið og þjálfara fyrir kvennaflokk en að þetta væri allt saman enn á frumstigum og of snemmt að gefa eitthvað frekara upp.
/IÖF
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.