Komin til Delhí

Þuríður Harpa bloggar frá Delhí

Þuríður Harpa Sigurðardóttir er nú komin til Delhí á Indlandi þar sem hún mun gangast undir stofnfrumumeðferð. Þuríður hefur nú bloggað í fyrsta sinn frá ferðalaginu stóra og lýsir hún hitafarinu í Delhí saman við það að liggja í ljósabekk inni í gufubaði.
Blogg Þuríðar í heild sinni.
Það er liðið alltof langur tími frá því að ég skrifaði hér inn síðast. Við lögðum upp í langt og strangt ferðalag að morgni 31. ágúst, millilentum í London og lentum svo í Delhí kl. 11.30 að staðartíma hér á laugardegi. Ferðin frá London  til Delhí var erfið bæði var ég að drepast í bakinu þegar leið á flugið og svo hálf flugveik. Þetta lagaðist allt þegar ég komst niður á jörðina. Flutningur í flugstöðvum gekk vel og fengum við sérlegan aðstoðarmann í gegnum alla flugstöðina, að  vísu kom svo í ljós að hann vildi fá vel borgað frá okkur fyrir að inna af hendi þessa vinnu sem hann er líklega ráðinn til en þar sem við vorum svo rugluð í verðlagningu létum  við hann hafa 20 rúbíur og töldum vel borgað, hann hinsvegar fór með þetta með miklum fyrirlitningasvip. Þegar við fórum svo að reikna komumst  við að því að við höfðum borgað honum um 55 íslenskar krónur. Von að karlinn væri fýldur. Maður frá hjúkrunarheimili Geethu Shroff kom og fylgdi okkur á leiðarenda, sem var náttúrlega æfintýri útaf fyrir sig. Í fyrstu finnst manni engin umferðarlög vera í þessari borg, en eftir að hafa farið nokkrum sinnum með dælduðum og rispuðum leigubíl áttar maður sig á að lögmálið er að flauta stanslaust, flauta fyrir horn, flauta á hjólamanninn og kerrukallinn, flauta á rútuna og þriggjahjóla farartækið, bara að liggja á flautunni til að láta vita af sér á alltof þröngri götunni þar sem öllu ægir saman. Að vísu er stoppað fyrir beljum sem virðast ráfa hér stefnulaust um borgina og éta rusl. Indira Gandhi flugvöllurinn er í byggingu ennþá og sá maður verkamenn vinna berfætta, í mölinni við að steypa. Þegar komið var á brautina til Delhí voru hreysi meðfram veginum, allskonar kofaskriflum er hróflað upp og eiginlega veit ég ekki hvernig þau hanga saman, kannski hanga þau saman á fatalufsum sem hengdar eru til þerris utan á húsin. Veit bara ekki hvernig fólk getur lifað svona. Þegar inn í borgina kom blasti allstaðar við fátækt, ég vonaði að við myndum á einhverjum tímapunkti keyra inn í grasi gróið og fallegt umhverfi þar sem allt væri hreint, en því miður allt í einu vorum við komin að hjúkrunarheimilinu, og fylgdarmaðurinn sagði okkur býsna hróðugur að þetta hverfi væri að verða með betri hverfum Delhí, o.m.g. hvurslags borg er þetta hugsði ég. Bíllinn stoppaði og við bröltum út, hitinn var yfirgengilegur, okkur hafði verið sagt að hann væri 31 gráða en samanborið við Ísland hlaut hann að vera nær 50 -60 gráður. Þetta var eins og að liggja í ljósabekk í gufubaði og vera orðið ansi heitt það er eiginlega eina samlíkingin sem ég get upphugsað á þessari veðráttu, samt sást ekki til sólar fyrir mistri. Við komum inn í húsið og en heljar lyfta er utan á húsinu sem ber mig upp þar sem þarf að fara upp nokkrar tröppur. Afgreiðslan og biðsalur litu bara nokkuð þokkalega út, alla vega mikið betur en húsið leit út að utan. Svo var okkur fylgt upp á herbergi, ég veit eiginlega ekki hvort ég á að hafa fleiri orð um það þar sem ég get ekki sagt neitt gott um það. Alla vega í herberginu var eitt rúm alltof hátt sem ekki var hægt að lækka, dýnu drusla handa Árna til að liggja á, lítill ísskápur og grind til að geyma matvöru í. Ónýt hitakanna og ristavél sem var í lagi. Herbergið var lítið og þröngt og virkaði gólfið frekar skítugt, svo var það klósettið, sem allsekki er gert ráð fyrir að þurfi að þjóna fólki í hjólastól, engar handstoðir og engin upphækkun, sturtan var römmuð inn með gólflista þannig að ekki var nokkur leið fyrir mig að fara í sturtu hjálparlaust og í raun hið mesta mál fyrir einhvern að hjálpa mér yfir. Þannig að við fyrstu sín var útlitið ekki glæsilegt. Indverskir doktorar hrúguðust inn og heilsuðu okkur og kynntu sig, við áttum voðalega erfitt með að skilja það sem þeir sögðu en gátum greint eitt og eitt orð og náð samhengi. Hjúkkurnar voru á sveimi og komu inn með fullt af blöðum sem ég átti að undirskrifa. Eftir allt þetta fengum við frið í 3 tíma þá áttum við að leggja okkur fyrir matinn. Hvíldin var kærkomin þó að rúmfletin hefðu getað verið betri alla vega steinsofnuðum við. Við vorum vakin 3 tímum seinna, Indverji kom með vatnsflöskur handa okkur, svo var matur, sem var mjög áhugaverður en ekki nokkur leið fyrir okkur að borða þannig að við þrjú áttum ágæta kvöldmáltíð með bollasúpum frá Knorr, sem virkilega bragðaðist vel. Um kvöldið prófaði ég sturtuna með mikilli aðstoð frá Árna tókst okkur að koma mér í sturtuna og já hún varð mér til mikillar gleði enda held ég að ég hafi eytt hálftíma í henni. Við vorum örþreytt þegar við lögðumst útaf um miðnættið og steinsofnuðum með það saman, ég í háa rúminu og bóndinn á gólfinu við hliðina á mér. Svona leið 1 ágúst í Delhí.



Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir