Klassísk grillmáltíð með meiru
Hjónin Ína Björk Ársælsdóttir og Reimar Marteinsson búa á Hvammstanga ásamt þremur börnum. Þau voru matgæðingar Feykis í 26. tbl. ársins 2017. Reimar er kaupfélagsstjóri KVH og Ína Björk starfar við umhverfismál og fleira á framkvæmda-og umhverfissviði Húnaþings vestra.
Þau segja að grillið sé mikið notað yfir sumartímann og finnst því tilvalið segja frá einni klassískri grillmáltíð á heimilinu og bæta við rabbarbaraböku sem er án hveitis og sykurs. „Einnig ætlum við að gefa hugmynd að næringardrykk, „boosti", sem er gott að fá sér eftir hlaup eða æfingu. Íslensk bláber, rabbarbari og grænmeti úr garðinum gegna stóru hlutverki í uppskriftunum og er án efa allt saman hollt, hagkvæmt og gott,“ segja matgæðingarnir okkar.
AÐALRÉTTUR
Klassísk grillmáltíð
Byrjað er á að skera niður papriku, lauk, kúrbít og sveppi og sett í álpappír og dass af Caj P. bbq grillolíu sprautað yfir, síðan lokað með álpappír og sett á grillið í um 20-30 mínútur.
Lambakótelettum skellt á grillið, (kryddaðar með salti, pipar og Season-all nokkrum dögum áður og geymdar í kæli í lokuðum umbúðum).
Mexicostykki úr Brauð-og kökugerðinni á Hvammstanga skorin í tvennt, smurð með hvítlaukssmjöri og sett beint á grillið í stutta stund.
Maísbaunir (frosnar í poka) settar í álbakka með góðri klípu af íslensku smjöri og salti og sett á grillið og látið malla á meðan kjötið grillast.
Ferskt salat er ómissandi - klettasalat og grænkál eru í uppáhaldi og er undirstaðan en til viðbótar niðurskorin paprika og rauðlaukur, sólþurrkaðir tómatar í bitum, fetaostur, vínber skorin í tvennt. Öllu blandað saman og furuhnetum sem búið er að rista á pönnu með olívuolíu, dreift yfir salatið.
Kartöflur eru einnig nauðsynlegt meðlæti með grillinu og notum við bæði sætar og bökunar-kartöflur.
EFTIRRÉTTUR
Rabbarbarabaka - án hveitis og sykurs
400-500 g rabbabari, eða eins og passar í mótið sem á að nota
100 g smjör
1 bolli möndlumjöl
1 tsk lyftiduft
1 bolli sukrin gold og aðeins meira til að dreifa yfir rabbarbarann
3 egg
1 tsk vanilludropar (hægt að nota möndludropa, þá bragðast bakan eins og marsipan!)
nokkrir dropar karamellu eða vanillustevía
Aðferð:
Setjið rabbarbarann í eldfast form og dreifið sukrin gold yfir eftir smekk, ca 2-3 msk. Bræðið smjör og sukrin saman í potti. Hrærið möndlumjöli, vanillu og lyftidufti saman við. Hrærið eggjunum saman við en passið að blandan sé ekki of heit þegar eggin eru sett í pottinn. Hrærið þar til allt er vel blandað og hellið svo yfir rabbarbarann. Bakið við 180°C í 30-40 mínútur.
Næringadrykkur- boost
250 ml af vöka, t.d möndlumjólk/kókosmjólk/vatn, einnig er hægt að nota berry safa - (magnið fer eftir smekk fer eftir því hvað þið viljið hafa drykkinn þykkan)
1 skófla (90ml) vanillu próteinduft (má sleppa)
handfylli af bláberjum (við notum íslensk bláber úr Vestur-Hópinu)
3-6 jarðarber eða annars konar ber
1 msk kanill
1 msk chiafræ
hálfur banani
1 msk hörfræolía
Til að gera booztið matarmeira er gott að bæta við (ca 1½ dl) af haframjöli eða sykurlausu múslí.
Aðferð:
Setjið öll hráefnin í blandarann í smá stund eða þar til drykkurinn er silkimjúkur. Gott er að setja nokkra klaka út í drykkinn.
Hellið drykknum í glas og njótið.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.