Kjósum og segjum nei

Þjóðaratkvæðagreiðslan á laugardag er afar mikilvæg. Þar gefst okkur kostur á að segja álit okkar á samningi sem kallar yfir okkur ólýsanlegar efnahagsbyrðar. Þessi atkvæðagreiðsla er einnig eitt mikilvægasta vopnið okkar í erfiðum samningum við Hollendinga og Breta sem hafa ekki skirrst við að beita okkur ofbeldi og ofríki. Þess vegna er svo óskaplega brýnt að við tökum öll þátt og fellum þennan samning sem er fullkomlega ásstæðulaust að við samþykkjum. 

  

Mikil andstaða þjóðarinnar og gríðarlega hörð barátta stjórnarandstæðinga og stöku stjórnarliða skapaði þá vígstöðu sem leiddi til þess að forseti Íslands taldi sér ekki annað fært en að synja Icesavelögunum staðfestingar. Þá var því haldið fram að ákvörðun hans skaðaði stöðu Íslands og bakaði okkur mikið tjón. 

Nú er öllum ljóst að svo er ekki. Heldur hið gagnstæða. Meira að segja ráðherrarnir sjálfir, foræstisráðherra og fjármálaráðherra, tala nú um að árangurinn í samningaviðræðum við Breta og Hollendinga hafi náðst vegna þess að þjóðaratkvæðagreiðslan hafi skapað okkur betri samningsstöðu. Sem er alveg rétt. Þjóðaratkvæðagreiðslan er vopnið okkar. 

Nú veltur það á okkur að láta það bíta sem best. Þeim mun meiri þátttaka og því sterkari sem andstaðan er, þeim mun öflugra vopn fáum við íslendingar í hendur til þess  að berjasst með í þágu hagsmuna okkar. 

Þess vegna skulum við nú öll sem eitt, þvert á flokkspólitísk bönd, sameinast í þágu þjóðarhags, skunda á kjörstað, nýta okkur lýðræðislegan rétt okkar og kjósa. Kjósa gegn nauðunginni sem Icesavesamningurinn er. Kjósa gegn samningnum til þess að styrkja vígstöðu okkar gegn þeim ríkjum nú fara gegn okkur með ofríki. 

Kjósum á laugardaginn og segjum nei. 

Einar Kristinn Guðfinnsson, alþingismaður

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir