Kirkjukór Bergsstaðakirkju æfði heima hjá Stefáni / STEFÁN ÓLAFS

Stefán Ólafsson. AÐSEND MYND
Stefán Ólafsson. AÐSEND MYND

Nú er það Stefán Þórarinn Ólafsson (1964), gítarleikari og hæstaréttarlögmaður hjá PACTA lögmönnum, sem svarar Tón-lystinni. Stefán er Húnvetningur, ólst upp á Steiná í Svartárdal og er sonur hjónanna Jónu Önnu Stefánsdóttur frá Steiná og Ólafs Blómkvist Jónssonar frá Keflavík. Hann býr á Blönduósi ásamt konu sinni, Erlu Ísafold. Feykir lagði Tón-lystina í faðminn á Stefáni snemma í desember og svaraði hann að bragði.

Aðspurður um helstu afrekin á tónlistarsviðinu segir hann að ekki sé hægt að tala um afrek. „En ég lærði á gítar á unglingsárunum og hef spilað með mörgum skemmtilegum og góðum tónlistarmönnum gegnum árin eins og Pétri Kolbeinssyni, Hauki Ásgeirssyni, Guðmundi Hagalín, Skarphéðni Húnfjörð, Benedikt Blöndal, Guðmundi Karli Ellertssyni, Fannari Viggóssyni, Guðbjarti Sindra Vilhjálmssyni og fleirum. Núna er ég að spila með Hauki Ásgeirssyni og þeim Brandsstaðabræðrum Brynjari og Friðrik og sú hljómsveit kallar sig Afdalabræður. Þá er ég hluti af Slagarasveitinni sem er eiginlega frá Hvammstanga og við erum að gefa út flott lög sem eru komin á Spotify. Þar eru að spila með mér Ragnar Karl Ingason, Geir Karlsson, Skúli Þórðarson, Valdimar Gunnlaugsson og svo höfum við fengið marga frábæra aðstoðarmenn eins og t.d. Ingibjörgu Jónsdóttur og Hjört Geirsson svo einhverjir séu nefndir. Svo er ég mjög ánægður með það að öll börnin mín, þau Tinna Kristin, Sigurður Pétur, Jón Gísli og Freydís Ösp, hafa lært eitthvað í tónlistarskóla og hafa gaman að tónlist.“

Hvaða lag varstu að hlusta á? Það er lagið Svona er lífið með Guðmundi R. Gíslasyni sem mér finnst vera flott lag.

Uppáhalds tónlistartímabil? Það er ekki hægt að segja að ég eigi það því mér finnst tónlist frá flestum tímabilum vera fín og hlusta á flest.

Hvaða tónlist fær þig til að sperra eyrun þessa dagana? Jólalög.

Hvers konar tónlist var hlustað á á þínu heimili? Kirkjukórinn var að æfa heima á Steiná og mamma sá um undirspil. Síðan var það aðallega tónlist í útvarpinu. Þegar eldri bróðir minn hann Óskar Ólafsson fékk sér græjur var það aðallega þungarokk og rokk sem mér fannst ekkert sérstaklega flott fyrst en það vandist vel.

Hver var fyrsta platan/diskurinn/kasettan/niðurhalið sem þú keyptir þér? Ég man það ekki alveg en líklega hefur það verið plata annað hvort með Eric Clapton eða Bubba Morthens og þá Ísbjarnarblús.

Hvaða græjur varstu þá með? Ég fékk einhverjar samsettar græjur í fermingargjöf og seldi síðan ágæta meri sem afi minn og nafni gaf mér til að kaupa hátalara. Ég sá reyndar eftir því en áhugasviðið var þarna frekar en í hestamennskunni.

Hvert var fyrsta lagið sem þú manst eftir að hafa fílað í botn? Obladi með Bítlunum held ég.

Hvaða lag getur eyðilagt fyrir þér daginn eða fer óstjórnlega í taugarnar á þér? Ef ég nenni með Helga Björns.

Þú heldur dúndurpartí í kvöld, hvað læturðu hljóma í græjunum til að koma öllum í stuð? Abba og eitthvað gamalt rokk.

Þú vaknar í rólegheitum á sunnudagsmorgni, hvað viltu helst heyra? Klárlega eitthvað lag með Slagarasveitinni í útvarpinu.

Þú átt þess kost að fara hvert sem er í heiminum og skella þér á tónleika. Hvert færirðu, á hvaða tónleika og hvern tækirðu með þér? Væri mjög svo til í að fara og sjá Eagels spila en það er ekki raunhæft lengur og vel því Eric Clapton eða Dire Straits og tæki þá konuna mína, hana Erlu Ísafold, með. Hún er svo skemmtilegur og traustur ferðafélagi.

Hvað músík var helst blastað í bílnum þegar þú varst nýkominn með bílpróf? Man það hreinlega ekki alveg en líklega hefur það verið Deep Purple eða eitthvað slíkt.

Hvaða tónlistarmaður hefur þig dreymt um að vera? Verð að segja Bubbi Morthens því mér hefur tekist einna best upp að spila login hans og kann þau flest.

Hver er að þínu mati besta plata sem gefin hefur verið út? Sú plata er ekki komin út en það verður platan sem er væntanleg með Slagarasveitinni þegar hún kemur út, líklega árið 2022. Sú plata verður líka mjög góð en hún skiptir mig að sjálfsögðu mestu máli.

Sex vinsælustu lögin á Playlistanum þínum?

Grái fiðringurinn með Slagarasveitinni

Það ert þú með Slagarasveitinni

Sæludalur með Slagarasveitinni

Take it Easy með Eagels

A Whiter Shade Of Pale með Procol Harum

Easy Livin með Uriah Heep

 

 

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir