Kirkja á Hegranesþingstað
Nýverið fór fram rannsókn á Hegranesþingstað á vegum fornleifadeildar Byggðasafns Skagfirðinga. Rannsóknin er liður í Skagfirsku kirkjurannsókninni og miðaði hún að því að rannsaka hvort hringlaga garðlag, meintur dómhringur eða lögrétta, væri í raun forn kirkjugarður.
Fornleifastofnun Íslands gerði rannsókn á Hegranesþingstað sumarið 2003 og komu þá í ljós einhverskonar niðurgreftir sem voru taldir geta verið mögulegar grafir. Rannsóknin nú fólst í að athuga nánar hvort um grafir væri að ræða og reyndist svo vera.
Alls komu fram merki um fjórar grafir í garðinum, þrjár grafir fullorðinna og ein ungbarnagröf, og hafa þær allar verið teknar um eða rétt eftir að Heklugjóskan frá 1104 féll. Tvær grafanna voru skoðaðar nánar og reyndust konur hvíla í þeim báðum. Vísbendingar eru um að kirkjugarðurinn sé að stofni til frá 11. öld og hefur hann líklega verið aflagður á 12.-13. öld. Þarna er um mikilvæga viðbót að ræða við sögu Hegranesþings og býlisins Garðs, en nánari tengsl þar á milli verða einungis ákvörðuð með frekari rannsóknum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.