Keyrt yfir Blönduós á torfærubíl í kvöld
Á morgun, laugardaginn 20. júlí, fer fram fjórða umferð Íslandsmótsins í torfæru við Kleifarhorn á Blönduósi. Um er að ræða svokallaða Jón og Margeir torfæru og hefjast leikar kl. 11:00 og stendur í um sex tíma samkvæmt auglýstri dagskrá Húnavöku. Í kvöld kl. 19 stendur til að torfærubíll aki yfir Blönduós – það er að segja ós Blöndu.
Það er auðvitað ekki nokkrum heilvita manni sem dettur svona lagið í hug og að sjálfsögðu harðbannað. Það þurfti því að sækja um leyfi fyrir gjörningnum og hefur byggðarráð Húnabyggðar samþykkt fyrir sitt leyti að leyfa akstur torfærubíls yfir ós Blöndu í tengslum við Húnavöku og torfærukeppnina sem haldin verður á laugardaginn.
„Passa skuli þó upp á að truflun verði sem minnst fyrir íbúa og lífríki svæðisins og að allt mögulegt rask verði lagfært í kjölfarið. Fyrir liggur samþykki Veiðifélags Blöndu og Svartár og hefur byggðarráð falið sveitarstjóra að hafa samband við lögreglustjóra Norðurlands vestra og Björgunarfélagið Blöndu vegna atriðisins og gæslu á svæðinu,“ segir í frétt á Húnahorninu.
Það er djamm í kvöld
Annars er það helst að Húnavakan var komin á fullt í gær í góðu veðri og veðrið verður til friðs í dag en það spáir kólnandi með kvöldinu. Þrátt fyrir að gengið hafi verið frá pöntun á blíðu um helgina er útlit fyrir vægan hita, væga rigningu og vægan vind. Þá er bara að skemmta sér af meiri krafti – en fallega.
Í dag eru margir spenntir fyrir Vilko-vöfflu-rölti sem hefst hálf fjögur og unga fólkið tekur örugglega froðurennibrautinni við Blönduóskirkju fagnandi. Dagur með Bóasi og Einari verða með tónleika í Krúttinu og kvöldinu lýkur síðan með stórdansleik í félagsheimilinu þar sem Bandmenn trylla lýðinn.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.