Kenny Hogg og Neil Slooves yfirgefa Tindastól
Það eru sviptingar hjá karlaliði Tindastóls í fótboltanum þessa dagana. Sagt var frá því í byrjun vikunnar að Stephen Warmsley, spilandi þjálfari liðsins, Chris Harrington aðstoðarþjálfari og knattspyrnudeild Tindastóls hefðu komist að þeirri niðurstöðu að þjálfarateymið hætti. Nú hafa tveir leikmenn til viðbótar yfirgefið liðið en þeir Kenny Hogg, markahæsti maður liðsins, og varnarjaxlinn Neil Slooves hafa gengið frá félagaskiptum yfir í lið Njarðvíkur.
Þetta er að sjálfsögðu mikil blóðtaka fyrir þunnskipaðan hóp Tindastóls og ljóst að það verður á mörkunum að nýr þjálfari liðsins, Stefán Arnar Ómarsson, og félagar nái að stilla upp fullskipuðu liði annað kvöld þegar þeir mæta einmitt liði Njarðvíkur á útivelli. Auk þeirra sem hafa kvatt liðið þá er Konni í banni og Hólmar er meiddur.
Feykir hafði samband við Stefán Arnar og spurði hvernig leikurinn legðist í hann. „Leikurinn gegn Njarðvik leggst bara vel í mig. Krefjandi leikur fyrir okkur að byrja á eftir breytingar síðustu daga.“
Þó liðinu hafi ekki verið spáð góðu gengi í sumar er ljóst að Stólarnir hafa sett markið hátt fyrir tímabilið en gengið ekki verið í takt við þær væntingar. Hafa markmiðin breyst og hver er stefnan? „Markmiðin okkar eru að tryggja veru okkar í þessari deild.“
Þá skýrði Stefán Arnar frá því að Kenny Hogg og Neil Slooves væru gengnir til liðs við Njarðvík og var í framhaldi spurður hvort einhverjir leikmenn væru í sigtinu hjá Stólunum. „Við vinnum hörðum höndum að því að fá menn i þeirra stað [innsk. Stephen, Kenny og Neil] en stutt er í að leikmannaglugginn lokist svo þetta þarf að gerast hratt. Við sem stöndum eftir í þessu förum samt fullir af krafti og tilhlökkunnar inn í þessa leiki sem eftir eru.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.