Kartoffelpuffer og Käsekuchen
Það er ekki komið að tómum kofanum hvað matargerð snertir hjá matgæðingnum Gudrunu Kloes á Laugarbakka en hún var matgæðingur vikunnar í 28. tbl. Feykis árið 2018. „Sem stendur vinn ég að bók um íslenska matargerð, kokka, frumkvöðla á sviði matargerðar o.fl. fyrir þýska forlagið Christian, sjá www.christian-verlag. Bókin verður á þýsku og mun koma út í haust. Einnig gef ég út og dreifi bók dóttur minnar, Maike Hanneck, um matargerð á Íslandi, ISLANDKOCHBUCH. Bókin hefur verið á markaði síðan 2004 og er einnig til á frönsku, CUISINER ISLANDAIS, síðan 2006," sagði Guðrún þá.
„Ég hef verið búsett á Íslandi í meira en 30 ár, kannski að verða 40 ár, ég man það ekki alveg! Hér hef ég unnið við ýmis störf, m.a. sem þýðandi og atvinnuráðgjafi. Mér liður mjög vel hér, en ég er ennþá mikill Þjóðverji í mér og held sérstaklega upp á heimasvæðið mitt Rheinhessen, en þaðan eru uppskriftirnar hér fyrir neðan,“ sagði Gudrun.
„Fyrstu uppskriftina notaði ég við kennslu þegar ég kenndi nemendum í Grunnskóla Húnaþings vestra þýsku. Hún er um kartöfluklatta, KARTOFFELPUFFER. Liður í kennslunni var þýsk matargerð og fór kennslan fram í heimilisfræðistofu. Krakkarnir tóku virkan þátt í undirbúningi en voru í fyrstu svolítið uggandi á meðan þau voru að rífa niður kartöflur og lauk. Þetta var jú eitthvað nýtt. En svo borðuðu þau allt upp til agna með bestu lyst.
Hin uppskriftin er eftir mömmu mina, hún er af bakaðri ostaköku, KÄSEKUCHEN. Mamma hefði aldrei kallað amerísku ostakökuna, þessa með muldum kexbotni og ostakremi ofan á, „köku" því hún er ekki bökuð. Og ég er sammála henni, ameríska ostakakan er sætur réttur og ágæt sem slík en hún er ekki kaka.
RÉTTUR 1
Kartoffelpuffer
2 stórar kartöflur á mann, skrældar - þó ekki bökunarkartöflur
1 stór laukur
2 egg
salt og pipar
majóran
hveiti eftir þörfum
smjörlíki til steikingar
Aðferð:
Rífið niður kartöflur og laukinn. Í skólanum gerðum við þetta með rifjárni. Bætið eggjum út í, kryddið og hrærið. Svo er hveiti bætt við, ein matskeið fyrir hverja kartöflu. Hrærið aftur.
Steikið klattana báðum megin á heitri pönnu í smörlíki. Ekki nota olíu, annars verður þetta bara gums.
Með þessu er borðuð eplamús (sem heitir applesauce á ensku og er til í krukkum í búðum.) Lagt er til að keypt sé lífræn eplamús, hún er einfaldlegra betri.
RÉTTUR 2
Käsekuchen
Hitið ofnin í 180°C.
Botn:
65 g smjörlíki
1 egg
65 g sykur
1 matskeið mjólk
1 teskeið lyftiduft
150 g hveiti eða aðeins meira.
Aðferð:
Búið til deig. Smyrjið lausbotna en hátt kökuform og klæðið það með deiginu.
Ostafylling:
1 kg Quark, hér notum við óhrært skyr
5 egg
2 bréf vanillubúðingur (Dr Oetker eða sambærilegt)
375 g sykur
2½ dl mjólk
250 g smjörlíki
Aðferð:
Hrærið saman sykrinum, smjörlíkinu og eggjunum. Þá er skyrinu bætt við, svo búðingsduftinu og loks mjólk. Þetta er eiginlega mjög þunnt en fer ofan á botnin. Bakið í um klukkustund.
Nú er bökunarpappír tekinn fram, gerð smá göt á hann og lagður ofan á kökuna. Svo á að leggja kökugrind ofan á þetta allt saman, hvolfa og láta kólna alveg.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.