Karl Sigurbjörnsson, biskup - Minning
Karl Sigurbjörnsson biskup lést 12. febrúar s.l. sjötíu og sjö ára að aldri, og fór útför hans fram frá Hallgrímskirkju 26. febrúar að viðstöddu miklu fjölmenni. Karl var biskup Þjóðkirkjunnar í 14 ár, frá 1998-2012.
Eitt af embættisverkum biskups Íslands er að vísitera söfnuði og kirkjur landsins, hitta presta og safnaðarfólk og skoða kirkjuhús, kynna sér kristnihald í landinu. Karl biskup vísiteraði Mælifellsprestakall ásamt konu sinni, Kristínu Guðjónsdóttur, dagana 30.-31. ágúst sumarið 2003. Hófst vísitasían á Mælifelli. Átti biskup fyrst rabbfund með sóknarpresti, en síðan mætti prófastur ásamt sóknarnefnd Mælifellssóknar og því næst kirkjuskoðun. Klukkan 17 var svo haldið fram í Goðdali, þar sem sóknarnefnd var mætt og kirkjunni þar gerð sömu skil. Að því búnu fóru biskupshjón til gistingar að Löngumýri, þar sem þau gistu, meðan á heimsókn stóð.
Næsta dag, sunnudag 31. ágúst, hélt vísitasían áfram með kirkjuskoðun á Reykjum kl. 10:30. Þar mætti sóknarnefnd ásamt Kristjáni Jóhannessyni, kirkjubónda og meðhjálpara á Reykjum. Að lokinni kirkjuskoðun skoðaði biskup og fylgdarlið gamla bæinn hjá Kristjáni og minjasafn hans, en síðan var hádegismatur á Bakkaflöt í boði sóknarnefndanna.
Að því búnu var haldið fram í Goðdali, þar sem var messa kl. 14 fyrir allar þrjár sóknir prestakallsins. Prédikaði biskup í messunni og lagði út af guðspjalli dagsins, Lúk.7:36-50, ræddi hann sérstaklega við börnin í messunni og afhenti þeim litla krossa að gjöf. Sóknarprestur þjónaði fyrir altari, kirkjukórinn söng og Sveinn Árnason var organisti. Evelyn Kuhne og Ólafur Atli Sindrason sungu tvísöng. Meðhjálpari var Þórey Helgadóttir. Fólk mætti úr öllum sóknum. Messukaffi var á Bakkaflöt og að því loknu héldu biskupshjón til Siglufjarðar, þar sem vísitasíunni lauk.
Biskup lýsti ánægju sinni með heimsóknina og ástand kirkjumála í prestakallinu, hve kirkjur og garðar væru í góðu formi og vel til alls hugsað. Ekki vannst tími til að fara fram í Ábæ að þessu sinni, en biskup lýsti yfir áhuga sínum að koma þangað síðar. Það tækifæri gafst svo átta árum síðar, eða sumarið 2011, er Karl biskup vísiteraði Ábæjarkirkju ásamt konu sinni og prédikaði þar í hinni árlegu messu sunnudaginn í verslunarmannahelgi 31. júlí. Var það fyrsta heimsókn þeirra í Ábæ. Veður var gott, hlýtt en úrkomulaust. Fór biskup yfir Jökulsá á kláfnum við Skatastaði og gekk fram að kirkju. Er hér var komið sögu hafði undirritaður látið af störfum sóknarprests í Mælifellsprestakalli en við tekið sr. Dalla Þórðardóttir, prófastur á Miklabæ, við sameiningu prestakallanna tveggja um áramótin 2008-9, og þjónaði hún fyrir altari í Ábæjarmessunni. Kirkjukór Miklabæjar- og Flugumýrarsókna leiddi söng, Jóhanna Marín Óskarsdóttir spilaði á orgelið og Kristín Halla Bergsdóttir lék á fiðlu. Fjöldi fólks mætti í messuna, akandi og sumir ríðandi. Í prédikun biskups, sem var mjög eftirminnileg, ræddi hann nokkuð um trú og vísindi og að margir álitu guðstrú úrelta eins og hvern annan barnaskap.
„Vísindi hafa ekki afsannað trúna, þótt þau hafi gert margt gott“, sagði biskup. „Darwin gerði margar og merkar uppgötvanir um þróun lífsins og flest líklega rétt, en hvorki honum né raunvísindum hefur tekist að útskýra til hlítar hið flókna undur sem maðurinn er. Það er hugsun, hugur að baki öllu lífi, kærleiksríkur guð, sem elskar heiminn. Undur lífsins verða ekki skilin né skýrð með vísindalegum aðferðum einvörðungu, heldur aðeins í trú, en vísindi og trú eiga samleið,“ sagði biskup m.a. í prédikun sinni, sem vel var hlustað á, svo heyra mátti saumnál detta, svo hljótt var umhverfis kirkjuna, þar sem fjöldi fólks sat, meðan á guðsþjónustunni stóð.
Að lokinni athöfn var haldið niður að Merkigili, þar sem systkinin Helga heitins Jónssonar, bónda þar, buðu kirkjugestum, sem voru um hundrað og sjötíu, í kaffi, eins og þau höfðu gert frá árinu 1997, er Helgi hrapaði til bana í Merkigilinu, og vildu með því heiðra minningu hans. Átti fólk notalega stund í kaffinu við rausnarlegar veitingar og gott spjall. Almenn ánægja var með komu biskupshjónanna, sem með ljúfmannlegri framkomu og afslöppuðu viðmóti unnu hug og hjörtu kirkjugesta og blönduðu við þá geði. Daginn endaði svo biskup með því að ganga niður yfir hið hrikalega Merkigil í fylgd með Agnari á Miklabæ og Gunnari á Löngumýri. Karl Sigurbjörnsson var eftirminnilegur persónuleiki og virðulegur í framgöngu. Hann var prédikari af Guðs náð, gæddur þeim
eiginleika í ríkum mæli að tala þannig, að eftir væri tekið og á hann hlustað, er hann túlkaði kristinn boðskap af alvöruþrunginni einlægni, stundum með ofurlítilli glettni en ætíð með tengingu við mannlífið í landinu. Um það bera bækur hans og ritverk glöggt vitni, m.a. bókin Dag í senn – eitt andartak í einu, sem eru stuttar hugleiðingar fyrir hvern dag ársins og miðla visku og von í önnum hversdagsins.
Blessuð sé minning hins mikilhæfa biskups, Karls Sigurbjörnssonar, og guði séu þakkir fyrir líf hans og starf.
Ólafur Hallgrímsson
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.