Kári hafði betur í Akraneshöllinni
Tindastólsmenn héldu vestur á Akranes í gær og spiluðu við sprækt lið Kára í 2. deildinni í knattspyrnu í fótboltahöll Skagamanna. Stólunum hefur gengið illa það sem af er sumri og átti enn eftir að næla í stig en lið Kára hafði unnið þrjá leiki í röð eftir að hafa tapað í fyrstu umferð. Því miður varð engin breyting á gengi Stólanna því Káramenn unnu leikinn 5-2 þrátt fyrir að hafa verið undir, 0-1, í hálfleik.
Lið Kára var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik en gekk ekki að skora. Stólarnir nýttu sér þetta ágætlega því Óskar Smári Haraldsson gerði eina mark fyrri hálfleik á 45. mínútu. Í síðari hálfleil tóku heimamenn síðan öll völd á vellinum og Andri Júlíusson jafnaði leikinn á 56. mínútu. Hann kom Kára síðan yfir fimm mínútum síðar en eftir ágæta skyndisókn á 69. mínútu náði Benjamín Gunnlaugarson að jafna leikinn fyrir Stólana. Það dugði ekki fyrir stigi því Andri fullkomnaði þrennuna þegar stundarfjórðungur var til leiksloka og síðan bættu Gylfi Brynjar Stefánsson og fyrrum leikmaður Stólanna, Páll Sindri Einarsson, við mörkum.
Í liði Tindastóls áttu Benni og Stefan Lamanna ágætan leik og það jákvæða við leik Stólanna er að liðið getur skorað mörk. Verr gengur hinsvegar að verjast mótherjunum. Stólarnir voru án þriggja lykilmanna í gær en í liðið vantaði þá Konna, Fannar Kolbeins og Bjarka Árna.
Næstkomandi laugardag kemur lið Vestra frá Ísafirði í heimsókn á Krókinn og hefst leikurinn kl. 14:00.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.