Kalli Jóns tekur við Tindastólsliðinu

Karl Jónsson var í dag ráðinn þjálfari úrvalsdeildarliðs Tindastóls í körfuknattleik fyrir næsta tímabili. Hann tekur við starfinu af Kristni Friðrikssyni sem þjálfað hefur liðið sl þrjú ár. Karl þjálfaði síðast lið í efstu deild karla tímabilið 2000-2001, þegar hann þjálfaði KFÍ.

Í samtali við Feyki.is sagðist Karl vera gríðarlega spenntur fyrir þessu verkefni; - Það er frábært að fá tækifæri til að taka við meistaraflokki síns uppeldisfélags. Tindastólshjartað í mér er stórt og það er akkúrat það sem ég kem til með að krefjast af leikmönnum okkar, að þeir spili með hjartanu, segir Karl. Hann segir að hugur manna hafi staðið til þess að ráða atvinnuþjálfara til lengri tíma, en það hafi ekki tekist að þessu sinni en menn stefni ótrauðir að því á næsta ári.

Það liggur fyrir að Ísak Einarsson muni ekki spila með TIndastólsliðinu þar sem hann er að flytjast á brott, en hvað með önnur leikmannamál? - Óli Barðdal er farinn til Danmerkur og óvíst að Helgi Freyr spili með liðinu áfram en við erum með ýmis plön í huga. Við þurfum að styrkja liðið hvort sem  er með íslenskum eða erlendum leikmönnum og erum opnir fyrir að skoða ýmsa möguleika í þeim efnum. Ég hef þá trú að leikmenn líti landsbyggðina hýru auga í því atvinnuástandi sem nú er á suðvesturhorninu.

Tindastólsliðið mun hefja líkamlega uppbyggingu sína í júní undir stjórn Friðriks Hreinssonar, en Karl mun hefja störf 1. ágúst.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir