Júdóiðkendur í æfingabúðum í Svíþjóð - Ferðasaga
Iðkendur Júdódeildar Tindastóls lögðu land undir fót ásamt iðkendum frá Pardusi á Blönduósi og Ármanni í Reykjavík og tóku þátt í æfingabúðum í Júdó í Stokkhólmi í Svíþjóð um helgina. Sagt er frá þessu á vef Júdódeildar Tindastóls.
Það voru alls 34 júdóiðkendur, þjálfarar og foreldrar sem skelltu sér í langa helgarferð frá Íslandi til Svíþjóðar á æfingabúðir sem stóðu yfir frá 9. til 12. ágúst. Æfingabúðirnar voru haldnar í sumarbúðum júdófélagsins IK Södra Judo í suðurhluta Stokkhólms í kyrrlátu skógi vöxnu umhverfi. Auk Íslendinganna og gestgjafanna komu einnig iðkendur frá júdófélaginu Linköping Judo en kjarni þessa hóps hefur tvívegis áður hist á æfingabúðum, síðast í Varmahlíð fyrir ári síðan.
Móttökur gestgjafanna voru höfðinglegar. Þeir sáu um að enginn gengi svangur um svæðið með kjarngóðum málsverðum fyrir og eftir gæða júdóæfingar, skipulögðu afþreyingu og tókst að gera þess júdóhelgi alveg hreint frábæra í alla staði.
Meðal afþreyinga sem fólk nýtti sér inn á milli júdóæfinga má nefna Gröna Lund Tívolí, Skansen safn og dýragarð, götu- og búðaráp og sund í stöðuvatni í nágrenni sumarbúðanna. Einn af hápunktum helgarinnar var laugardagskvöldið sem byrjaði með humarveislu og endaði svo á popp- og ísveislu eftir létta júdóæfingu, sem var óvænt skotið inn á milli rétta.
Þó að hópurinn hafi verið kvaddur með úrhellisrigningu á sunnudagsmorguninn stendur upp úr eftirminnileg og veðursæl júdóhelgi þar sem allir fóru nokkru ríkari en þeir komu.
Fleiri myndir má finna á vef júdódeildar Tindastóls.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.