Jón berst gegn sameiningu ráðuneyta

20070404152206146Vísir greinir frá því að Jón Bjarnason, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, hefur beitt sér gegn sameiningu sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins og iðnaðarráðuneytisins. Samkvæmt heimildarmönnum Fréttablaðsins, úr þingliðum beggja stjórnarflokka, hefur hann reynt að torvelda vinnu við verkefnið, meðal annars með því að neita að hitta embættismenn sem starfa að sameiningunni.

Kveðið er á um sameiningu ráðuneytanna í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í atvinnuvegaráðuneyti. Samhliða henni á að færa rannsókir, mótun nýtingastefnu og ráðgjöf vegna auðlinda til umhverfisráðuneytisins, sem við það verður umhverfis- og auðlindaráðuneyti.

Í þingmálaskrá ríkisstjórnarinnar er gert ráð fyrir að frumvarp um nauðsynlegar lagabreytingar vegna sameiningarinnar og tilfærslu verkefna verði lagt fram nú á haustþingi. Það hefur ekki enn verið gert en samkvæmt heimildum blaðsins er enn stefnt að því.

Ekki hefur verið ákveðið hvenær af sameiningunni verður en bæði hefur verið rætt um mitt næsta ár og ársbyrjun 2011.

Viðmælendur Fréttablaðsins segja Jón leggjast bæði gegn sameiningu ráðuneytanna og flutningi verkefna er lúta að auðlindamálum úr sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytinu í umhverfisráðuneytið. Veigamest er færsla Hafrannsóknarstofnunarinnar á milli ráðuneyta. Í stefnuskrá Vinstri hreyfingarinnar - græns framboðs fyrir síðustu kosningar var fjallað um að auka beri veg auðlindamála í umhverfisráðuneytinu.

Viðmælendur Fréttablaðsins úr stjórnsýslunni furða sig á háttalagi Jóns í ljósi þess að breytingarnar eru á stefnuskrá ríkisstjórnarinnar og njóta þar með samþykktar hans eigin þingflokks.

Þingmenn úr VG sem rætt var við sögðu málið njóta stuðnings meirihluta þingmanna flokksins og almennur vilji væri fyrir því að af breytingunum yrði. Jóni hefði verið gerð grein fyrir því.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir