Jólatónleikar Lóuþræla
Norðanátt segir frá því að á miðvikudagskvöld fóru fram tónleikar í Félagsheimilinu Hvammstanga með Lóuþrælunum og Hörpu Þorvaldsdóttur. Voru tónleikarnir í boði Sparisjóðsins Hvammstanga og var þar margt um manninn.
Tónleikarnir hófust á því að Lóuþrælarnir örkuðu inn salinn og upp á svið, syngjandi jólalagið „Hátíð fer að höndum ein“. Síðan tók við hvert jólalagið af fætur öðru og má flest þeirra finna á nýja hjómdisknum þeirra „Ég man þau jólin“. Elinborg Sigurgeirsdóttir lék undir á píanó og Guðmundur St. Sigurðsson stjórnaði kórnum.
Harpa Þorvaldsdóttir söng einsöng með kórnum í lögunum „Jólanótt“, „Maríuvers“ og „Ó helga nótt“. Auk þess flutti hún aríu úr söngleiknum Carmen með miklum tilþrifum, við undirleik Elinborgar.
Kynnir á tónleikunum var Sigurbjörg Jóhannesdóttir og flutti Sólrún G. Rafnsdóttir hugvekju þar sem hún minntist jólanna á sínum bernskuárum og hvernig það er að vera með þrjú kríli sem bíða spennt eftir jólunum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.