Jólahlaðborð Rótarýklúbbs Sauðárkróks á laugardaginn
Laugardaginn næsta, 2. desember, er hið árlega jólahlaðborð Rotarýklúbbs Sauðárkróks en þessum viðburði var hleypt fyrst af stokki í upphafi aðventu árið 2013 og hefur fest sig í sessi sem ómissandi þáttur í jólaundirbúningi Skagfirðinga. Vel hefur verið mætt í öll skiptin sem hægt hefur verið að efna til veislu og eiga þeir von á um 600 manns í ár. Ekki má gleyma að það er frítt inn en fólk getur lagt fram frjáls framlög á staðnum. Að sögn Róberts Óttarssonar, forseta Rótarýklúbbs Sauðárkróks hefur undirbúningur gengið vel en framundan er að sjóða kjötið og skera, útbúa jafninginn og sósuna, dekka svo upp á föstudagskvöldinu, koma matnum í hús og þá kemur jólalyktin á Krókinn.
Eitt stærsta markmið Rótarýhreyfingarinnnar er að láta gott af sér leiða, bæði í samfélaginu og í hinum stóra heimi. Rótarýklúbbur Sauðárkróks er með nokkur samfélagsverkefni í gangi en hið árlega Jólahlaðborð er það langstærsta og umfangsmesta og hefur verið síðustu 10 árin eða svo. Verkefnið fór af stað árið 2013, með aðkomu fyrirtækja og stofnana í Skagafirði og víðar og varð fyrsta jólahlaðborð Rótarýklúbbsins að veruleika á aðventunni fyrir tíu árum og þóttist takast afar vel, liðlega 600 gestir mættu til veislunnar.
Rótarýfélagarnir telja á þriðja tuginn og þótti flestum þeirra hugmyndin allt of stór og umfangsmikil, fyrir svona lítinn félagsskap, en annað hefur komið á daginn. Það var núverandi umdæmisstjóri Rótarýhreyfingarinnar á Íslandi, Ómar Bragi Stefánsson, sem lét sér detta þetta í hug og hefur þetta gengið upp árlega síðan, fyrir utan Covid árin tvö, 2020 og 2021.
"Hugsunin er að sjálfsögðu að láta gott af sér leiða, það eru því miður ekki allir sem hafa ráð á að sækja jólahlaðborð en þau eru hinsvegar mjög skemmtileg og orðin ómissandi hluti Aðventunnar í Skagafirði. Þetta hefur aukið samstöðuna í klúbbnum, virkjað félagana og við finnum að við höfum látið gott af okkur leiða þegar við lítum yfir salinn og sjáum bros á hverju andliti. Við Rótarýfélagar hefjum undirbúninginn á haustdögum, fáum sem betur fer stuðning frá nokkrum góðum fyrirtækjum sem leggja okkur lið og létta undir með okkur og nokkur aðstoða við að undirbúa matargerðina. Við dekkum upp fyrir um 600 manns í íþróttahúsinu á Króknum og búum til réttu jólastemninguna þar” segir Ómar Bragi og bætir við " Þetta er sko alvöru jólahlaðborð, boðið upp á síld og rúgbrauð, rækjurétt, hangikjöt og laufabrauð, hamborgarhrygg, sósur og jafning með kartöflum og öllu því meðlæti sem fylgir svona veislu. Svo er að sjálfsögðu jóladrykkir, kaffi og konfekt. Og svo erum svo heppin að í ár mætir kvennakórinn Sóldísirnar á jólahlaðborðið og syngur inn jólin.”
"Í ár erum við rétt liðlega tuttugu Rótarýfélagar í klúbbnum, sem allir leggja sitt af mörkum á einn eða annan hátt til verkefnisins. En okkur langar að bjóða fleirum að gerast félagar, bæði konum og körlum, öllum sem vilja láta gott af sér leiða, það er alltaf pláss fyrir gott fólk í þessum öfluga félagsskap sem Rótarý er," segir Róbert að lokum.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.