Jóla hvað!

jolatreÓvitinn í grunnskólanum á Blönduósi segir að nú styttist óðum í jólin og víða er allt að gerast í jólaundirbúningi. Í síðustu viku skrifaði Margrét Hildur í 10. bekk á vef Óvitans og segir:

Það eru þrjár vikur eftir af skólanum þangað til að skreytingadagurinn verður, í vikunni eftir það eru prófin og svo litlu jólin föstudaginn 18. desember.

Berglind íslenskukennari og Anna Margret enskukennari eru báðar byrjaðar á jólaverkefni. Berglind með svokallaða jólabók sem felur í sér verkefni bæði unnin í skólanum og heima. Búa til jólalista, jólasögu, jólakort og ýmislegt fleira. Anna Margret er með verkefni þar sem okkur er skipt í hópa 4 saman og eigum að finna hvernig jólin eru í ákveðnu enskumælandi landi, eigum við svo að búa til veggspjald og svo í lokin er kynning og spurningakeppni milli hópa. 

Skreytingadagurinn er 9. desember á miðvikudegi og þá er jólaundirbúningurinn í hámarki í skólanum, krökkunum í unglingadeild er skipt í hópa og eru búnar til piparkökur, stofan skreytt, búin til jólakort og margt margt fleira.

Litlu jólin eru árlegur viðburður hjá skólanum, síðasta skóladaginn í desember og þá hittast allir bekkirnir fyrst uppí kirkju, þar er helgileikur hjá 6. bekk, svo er haldið útí íþróttahús og sungið og dansað í kringum jólatréð. Jólasveinar kíkja í heimsókn og gefa gjafir.

 

Eftir þetta fer hver bekkur með umsjónarkennara sínum í stofuna sína og er þá jólasaga, spjallað, borðaðar smákökur sem hver og einn kom með fyrir sig og skipst á gjöfum.  

 

Eftir litlu jólin byrjar svo jólafríið og byrjar skólinn svo aftur 5. janúar.

 

Margrét Hildur, 10. bekk

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir