Jóhann Björn Sigurbjörnsson frjálsíþróttakappi - Glímir við erfið veikindi
Þann 18. febrúar síðastliðinn greindist frjálsíþróttagarpurinn úr UMSS, Jóhann Björn Sigurbjörnsson, með Hodgkins eitlakrabbamein og hafa síðustu vikur farið í rannsóknir og undirbúning fyrir stífa lyfjameðferð sem hófst um miðjan mars. „Þetta er stórt verkefni sem ég þarf að takast á við og ætla ég að leggja mig allan fram við að klára það. Þar af leiðandi mun ég vera á hliðarlínunni við brautina í sumar, en við sjáumst þar síðar,“ skrifaði Jóhann á Facebooksíðu sína og þakkaði þann stuðning og hlýhug sem hann hafði notið frá vinum sínum. Feykir setti sig í samband við kappann og forvitnaðist örlítið um málið.
Jóhann Björn hefur verið sigursæll á keppnisvöllum frjálsíþróttanna í gegnum tíðina og gekk honum býsna vel síðasta sumar. Hann hóf sumarið á því að keppa fyrir landsliðið á Smáþjóðaleikunum, hljóp 100 og 200 metrana en þurfti svo að sleppa úrslitum í 200 og boðhlaupunum því hann ég tognaði smávægilega í 200 metra hlaupinu. „Ég náði mér svo aftur á strik um mitt sumar og hljóp virkilega góð hlaup bæði á Króknum og í Reykjavík og endaði svo tímabilið að fara með landsliðinu á Evrópubikar þar sem ég hljóp 100 metrana og var í 4x100 metra boðhlaupssveitinni. Við komumst upp um deild sem var virkilega gaman.“ Jóhann segist því miður ekkert hafa komist á brautina í vetur, en æfingar höfðu gengið vel og allt leit vel út fyrir vetrartímabilið. Hann segist hafa sett sér ákveðin markmið fyrir næsta sumar en þau verða að bíða betri tíma.
„Þau voru frekar skýr hjá mér í 100 metrunum en ég ætlaði mér einfaldlega að slá Íslandsmetið, þar sem ég var ég að hlaupa virkilega góða tíma í erfiðum aðstæðum í fyrrasumar, þannig það var orðið raunhæft markmið. Í 200 metrunum var markmiðið að bæta minn besta tíma því það er mjög langt síðan ég bætti mig þar. Í 400 metrunum var markmiðið að hlaupa undir 48 sekúndum en einnig er alltaf mjög gaman að hlaupa 300 metrana og þar var markmiðið að hlaupa undir 34 sekúndum. En að sjálfsögðu eru þetta enn mín markmið.“
Varð veikur um jólin
Hvernig það hafi komist upp að Jóhann Björn væri veikur, segir hann það hafa byrjað í jólafríinu eftir að hann kom á Krókinn. „Ég varð strax veikur með venjulega hálsbólgu og kvef, vakna svo á á jóladag allur bólginn á hálsinum. Ég fer svo á heilsugæsluna 27. des. á Króknum þar sem ég er skoðaður og svo sendur beint til Akureyrar og þar koma í ljós miklar eitlastækkanir. Ég var lagður inn í nokkra daga, læknarnir voru ekki vissir hvað væri í gangi og eitlarnir gengu allir tilbaka.
Síðan átti ég að koma aftur á Akureyri til að láta taka sýni, en þeir hættu við það því það virtist í lagi með allt. Síðan fór ég í skoðun á Landspítalanum í lok janúar og þar fékk ég sömu svör, allt virtist vera í lagi og læknirinn sagði mér að snúa mér aftur að æfingum. Ég fór á sirka þrjár æfingar en var svo alveg búinn alla vikuna eftir. Ég fór því aftur á Landspítalann og þá var ákveðið að taka sýni úr einum eitli. Síðan var ég boðaður í viðtal þar sem mér var tilkynnt að ég væri með Hodgkins eitlafrumukrabbamein.“
Jóhann segist að vonum hafa brugðið við fréttirnar og fyrstu dagarnir á eftir frekar erfiðir og fyrst um sinn fannst honum erfitt að segja frá ástandi sínu.„Fyrst hélt ég bara áfram að mæta í vinnuna ásamt því að fara í margar rannsóknir sem eru hluti af undirbúningi fyrir lyfjameðferðina. Það valt mikið á því hvað myndi koma út úr jáeindaskannanum, en niðurstöðurnar úr honum sýndu að meinið virtist eingöngu vera í eitlunum fyrir ofan þyndina og á öðru stigi. Ég fór svo í fyrstu lyfjagjöfina þann 16. mars síðastliðinn og virðist allt rúlla ágætlega enn sem komið er.“
Jóhann Björn vill koma á framfæri þökkum til allra sem hafa sýnt honum stuðning sem skiptir hann miklu máli. „Einnig vil ég segja til allra að lífið býður oft upp á löng og ströng verkefni og þess vegna á maður alltaf að njóta þess að vera heilbrigður og njóta þess að vera til, alla daga. Lífið er núna.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.