Jesse Shugg með þrennu í markaveislu fyrir austan

Jesse Shugg var á skotskónum
Jesse Shugg var á skotskónum

Tindastólsstelpurnar fóru enga fýluferð á Vilhjálmsvöll á Egilsstöðum eða Villa Park eins og gárungarnir kalla völlinn. Þar mættu þær sameinuðu liði Fjarðarbyggðar, Hattar og Leiknis. Leikurinn reyndist hin mesta markaveisla en honum lyktaði með þremur mörkum gegn fimm, Tindastóli í vil. Nýráðinn leikmaður, Jesse Shugg skoraði þrennu í leiknum.


Það var hún Hugrún Pálsdóttir sem kom Tindastóli yfir á 15. mínútu. Austfirðingarnir voru ekki lengi að svara en jöfnunarmarkið kom á 19. mínútu en það var Kristín Inga Vigfúsdóttir sem átti heiðurinn á því. Jesse Shugg, sem kom inn í leikmannahóp Tindastóls í byrjun sumars, stimplaði sig inn í leikinn á 26. mínútu og kom Stólunum yfir, 1-2. Á 37. mínútu leiksins jafnaði Sara Kolodziejczyk metin og staðan því orðin 2-2. Rétt áður en dómarinn flautaði til hálfleiks lét annar nýr leikmaður á sér kveða, en það var Kasey Wyer sem smellti boltanum í netið og var staðan því í hálfleik 2-3 og orðið ljóst að bæði liðin voru á skotskónum og líklegt að markaveislan væri ekki búin. Ekki var seinni hálfleikur langt á veg kominn er næsti bolti lág í netinu. Í þetta sinn voru það austfirðingarnir sem jöfnuðu leikinn en Elma V. Sveinbjörnsdóttir skoraði markið á 49. mínútu leiksins. Jesse Shugg var ekki á þeim stuttbuxunum að gefa austfirðingunum stig og skoraði fjórða mark Tindastóls á 56. mínútu. Jesse kláraði svo leikinn á 84. mínútu og fullkomnaði þar með þrennu sína.
Fjarðarb./Höttur/Leiknir 3 – 5 Tindastóll.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir