Jákvætt og uppbyggilegt samstarf

 

Snorri Styrkársson, formaður Atvinnu- og ferðamálanefndar Skagafjarðar sér samstarf sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar sem  jákvætt og uppbyggilegt  samstarf í Skagafirði að atvinnumálum sem sveitarstjórnarfulltrúar ættu að vera hreyknir af.   Slík samstaða og samvinna er eitthvað sem ekki veitir af á þessum erfiðu tímum í Íslensku samfélagi.
Eru þetta viðbrögð Snorra við bókun sem Gísli Árnason frá VG lagði fram sem fyrirspurn og bókun  varðandi samstarf Sveitarfélagsins Skagafjarðar og Skagafjarðarhraðlestar.  -Fréttir hafa birst af þessari bókun Gísla.  Sem formanni atvinnu- og ferðamálanefndar langar mig að koma eftirfarandi á framfæri við lesendur Feykis og Gísla Árnason sjálfan því augljóst er að Gísli skilur ekki eðli samstarf sveitarfélagsins og Skagafjarðarhraðlestarinnar eða ákveður í einhverjum sérstökum tilgangi að mistúlka samstarfið.  Gísli heldur því m.a. fram í bókun sinni að sveitarfélagið sé að kosta eitthvað fyrir Skagafjarðarhraðlestina og að því ýjað að sveitarfélagið sé að sóa fjármunum í hendur lögaðila.  Einnig telur Gísli að stjórnsýsla sveitarfélagsins sé hæpin og gagnrýnisverð.

Til upplýsinga fyrir Gísla Árnason og aðra sem lesið hafa þessa bókun hans er nauðsynlegt að koma eftirfarandi á framfæri:

a)      Skagafjarðarhraðlestin er áhugamannafélag þeirra sem vilja stuðla að uppbygginu atvinnulífs og annarrar framþróunar í okkar ágæta samfélagi.   Vinna félagsmanna í Skagafjarðarhraðlestinni er sjálfboðavinna áhugasamra og ólaunaðra einstaklinga.   Skagafjarðarhraðlestin fékk fjölda fyrirtækja í héraðinu til að leggja fram allt að 5 milljónir króna á ári til kostunar á verkefnum er stuðla að atvinnuuppbyggingu í héraðinu á móti vinnuframlagi starfsmanna sveitarfélagsins.

b)      Upphaflega var til þessa samstarfs stofnað á árinu 2007.  Á fundi  Atvinnu- og ferðamálanefndar 1.  október 2009 var ákveðið að leggja meiri vigt í verkefnið og ráða aftur sérstakan atvinnuráðgjafa til sveitarfélagsins til að sinna hugmyndum og verkefnum sem spretta úr þessu jákvæða og einlæga samstarfi sveitarfélagsins, einstaklinga og fyrirtækja hér í héraðinu.  Jafnframt var ákveðið að endurskoða og framlengja samning aðila um þetta verkefni.  Um áramótin tók síðan nýr starfsmaður til starfa hjá sveitarfélaginu og er ástæða til að fagna komu hans en hann heitir Sigfús Ingi Sigfússon.  Fjármögnun starfs Sigfúsar Inga rúmast  inna fjárheimilda nefndarinnar og er ekki útgjaldaauki fyrir sveitarfélagið, einungis önnur nýting fjármuna.

c)       Hér er því um samstarfsverkefni að ræða milli sveitarfélagsins, einstaklinga og fyrirtækja í sveitarfélaginu og ætlað að stuðla að jákvæðu hugarfari og samvinnu við uppbyggingu í héraðinu.   Ástæða er til að fagna þessu framtaki og þeim einlæga ásetningi og fórnfúsa starfi sem aðilar leggja af mörkum til að reyna einsog hægt er að byggja upp okkar góða samfélag.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir