Jafntefli í skítaveðri í Njarðvík
Tindastólsmenn sóttu Njarðvíkinga heim í gærkvöld þegar 15. umferð 2. deildar hófst. Leiknum lauk með markalausu jafntefli í sannkölluðu skítaveðri.
Það var mikið í húfi fyrir Tindastólsmenn að fá eitthvað út úr þessum leik sem var mikilvægur í botnbaráttunni en Tindastólsliðið er í næst neðsta sæti deildarinnar.
Byrjunarlið Tindastóls í leiknum: Gísli Sveins, Alli, Bjarki, Stefán Arnar, Pálmi, Árni Einar, Árni Arnars, Donni, Konni, Ingvi Hrannar og Davíð Rúnars.
Njarðvík byrjaði hraustlega og áttu sláarskot eftir nokkrar mínútur. Fyrsta góða færi okkar kemur um miðjan hálfleikinn. Fannar Örn sem kom inná fyrir Konna kemur boltanum fyrir en þar er Ingvi Hrannar einn á fjærstöng en markmaðurinn átti ótrúlega markvöslu, sjálfsagt sína bestu á ferlinum.
Leikurinn einkenndist af mikilli baráttu í loftinu enda leikmenn stórir og stæðilegir í báðum liðum. Það má segja að fyrri hálfleikurinn hafi verið í jafnvægi en Tindastóll lék á móti sterkum vindi.
Í seinni hálfleik átti Tindastóll nokkur góð færi td. Ingvi Hrannar, Davíð og Árni Einar en inn vildi boltinn ekki. Atli Arnarson kom inná og átti fína innkomu ásamt Guðna sem einnig kom við sögu í leiknum.
Tindastóll var betri aðilinn á síðustu 20 mínútunum og kom Davíð Rúnars klárlega inn í liðið með nýjan vinkil. Barátta liðsins var ljómandi góð í leiknum og nú er bara að gefa í.
Það verður spennandi að sjá strákana á þriðjudaginn þegar Höttur kemur í heimsókn á Krókinn.
Magnamenn sem næstir eru okkur í deildinni töpuðu sínum leik í gærkvöld og má því þakka nágrönnum okkar í KS/Leiftri það. Þá eiga Víðismenn leik til góða en þeir eru líkt og Magni með 16 stig í þriðja til fjórða neðsta sæti á meðan Tindastóll eru aðrir neðstir með 14 stig. Leikurinn við Hött er því gríðarlega mikilvægur.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.