Jafntefli hjá Hvöt og KS/Leiftri
Hvatarmenn fengu KS/Leiftur í heimsókn á laugardaginn í annari deildinni í fótbolta og dkemmst frá því að segja að leikurinn endaði með jafntefli 3-3.
Á Húna.is er eftirfarandi lýsing á leiknum.
Hvatarmenn tóku í gær á móti KS/Leiftri í síðasta heimaleik sumarsins. Leikið var á Blönduósvelli í nokkuð hvassri sunnanátt en ágætis hita. Leikmenn KS/Leifturs byrjuðu með knöttinn og áttu fyrsta skotið á markið í leiknum. Það var hins vegar á 6. mínútu sem Muamer fékk dauðafæri eftir góða sendingu frá Sigurði Rúnari en inn vildi boltinn ekki. Gestirnir voru hins vegar fyrstir til að skora er Ragnar Hauksson skoraði á 10. mínútu leiksins og Hvatarmenn varla sáttir við stöðuna. Þeir sóttu verulega í sig veðrið og á 20. mínútu jöfnuðu þeir leikinn er boltinn datt fyrir Orra Rúnarsson rétt fyrir utan vítateiginn og hann hamraði boltann í stöng og inn.
Tveimur mínútum síðar fékk Trausti Eiríksson, framherji Hvatar, dauðafæri einn á móti markmanni en hann skaut beint á markmanninn þegar það virtist auðveldara að skora framhjá honum. Á 24. mínútu þrumaði Ragnar Hauks í þverslá Hvatarmarksins og þaðan barst boltinn á samherja hans sem þrumaði einnig í þverslá Hvatarmarksins og þar var lukkan með heimamönnum. Tíu mínútum síðar skorðuðu gestirnir annað mark sitt í leiknum er Jóhann Guðbrandsson nýtti sér mistök í vörn Hvatar og skoraði næsta auðveldlega. Milan átti góða aukaspyrnu á 41. mínútu leiksins sem endaði í stöng gestanna og staðan í hálfleik var 1-2 gestunum í vil.
Strax í byrjun síðari hálfleiks fékk Milan boltann við miðju vallarins einlék alla leið inn í vítateig gestanna og hamraði boltann á markið, því miður fór boltinn í þverslá marksins og ekkert á því að græða. Áfram hélt leikur að vera hin besta skemmtun en á þeirri 63 juku gestirnir muninn er þeir tættu vörn heimamanna í sig og Guðjón Gunnarsson skoraði og staðan orðin 1-3.
Við þetta vöknuðu heimamenn til lífsins og áttu nokkur mjög góð færi áður en Muamer skoraði 17 mark sitt í sumar en hann fékk þá boltann á vallarhelmingi gestanna, sendi hann út á Orra sem sendi hann fyrir á kollinn á Muamer og staðan orðin 2-3 og 13 mínútur til leiksloka. Einungis tveimur mínútum síðar voru Hvatarmenn búnir að jafna leikinn. Hvöt fékk aukaspyrnu við eigin vítateig, spyrnan var tekið fljótt. Boltinn barst á Orra, hann sendi á Muamer sem komst af harðfylgi inn í vítateiginn og sendi fyrir á Halldór Fannar Halldórsson sem skaut á markið. Markmaður KS/Leifturs hálfvarði skotið en inn lak boltinn og staðan orðin 3-3.
Eftir þetta fengu Hvatarmenn aukið sjálfstraust og juku sóknarþungann. Úr einni góðri sókn komst Muamer í gott færi. Hann náði að gabba varnarmann, skaut framhjá markverðinum en boltinn endaði í stöng gestanna og rann nánast á marklínunni fyrir markið en inn vildi hann ekki. Síðasta færi leiksins fékk Ragnar Hauks en hann átti flott skot á markið á 44. mínútunni en Ari í markinu varði vel og því varð jafntefli niðurstaðan í leiknum.
Næsti leikur Hvatar og sá síðasti í sumar er næstkomandi laugardag er þeir sækja nágranna okkar á Sauðárkróki heim en það verður eflaust hörkuleikur þar sem Tindastólsmenn geta ennþá fallið sigri þeir ekki í leiknum eða geri jafntefli.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.