Jafnt hjá Hvöt og BÍ/Bolungarvík á laugardag
Hvatarmenn tóku á móti BÍ/Bolungarvík á laugardag í 3ju umferð 2. deildar karla. Leikurinn fór fram í blíðskaparveðri og voru því kjör aðstæður til knattspyrnuiðkunar.
Þrátt fyrir að Hvatarmenn hefðu verið mun meira með boltann og fengið fleiri færi en gestirnir tókst hvorugu liðinu að skora í leiknum og lauk honum því 0-0.
Gestirnir byrjuðu með boltann en Hvatarmenn réðu miðjuspilinu en tókst ekki vel upp við markið. Fyrsta færi leiksins kom á 13. mínútu en þá komst Jón Kári upp að endamörkum hægra megin og sendi fyrir þar sem Mirnes Smajlovic átti slakt skot framhjá. Fjórum mínútum síðar komst Óskar Snær Vignisson inn í vítateig gestanna en skot hans rataði beint á markvörð gestanna.
Hvatarmenn skoruðu síðan mark á 20. mínútu leiksins er Jens þjálfari Sævarsson tók aukaspyrnu og sendi fyrir á kollinn á Mirnes sem skallaði í netið en var réttilega dæmdur rangstæður. Hvatarmenn áttu 2-3 hálffæri það sem eftir leið fyrri hálfleiknum en gestirnir fengu sitt fyrsta færi á 38. mínútu er þeir prjónuðu sig í gegnum vörn heimamanna en Ari Kristinsson varði vel með úthlaupi.
Í síðari hálfleik héldu heimamenn áfram að sækja án þess að hafa erindi sem erfiði og var ljóst að gestirnir voru komnir á Blönduós til að verjast og sækja eitt stig. Heimamenn komust næst því að komast yfir er Óskar Snær komst einn í gegnum vörn Bí/Bolungarvíkur en skot hans var laust og fór framhjá markinu.
Leikurinn endaði eins og fyrr segir 0-0 og heimamenn hljóta að vera verulega svekktir að hafa tapað 2 stigum í baráttunni í deildinni en að sama skapi hljóta gestirnir að vera sáttir með úrslitin.
/hvotfc.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.