ÍR jafnaði rimmuna í hörku leik

ÍR-ingar fagna í leikslok með sínum öflugu stuðningsmönnum. Mynd: PF.
ÍR-ingar fagna í leikslok með sínum öflugu stuðningsmönnum. Mynd: PF.

Leikmenn ÍR komu vel stemmdir til leiks er þeir mættu Stólunum í kvöld í öðrum leik þeirra í úrslitakeppninni í Domino´s deildarinnar í körfubolta. Eftir mikinn baráttuleik uppskáru gestirnir úr Breiðholtinu sanngjarnan sigur yfir heimamönnum með 106 stigum gegn 97. 

Stólarnir byrjuðu leikinn betur og gáfu stuðningsmönnum sínum ágætis von um sigur í kvöld. Leiddu þeir mest allan fyrsta hluta og virtust ætla að hrista gestina duglega af sér um miðbik leikhlutans er þeir fóru úr stöðunni 11-12 í 17-12 og enduðu hann í 24-16.

En á rúmri hálfri mínútu í upphafi annars leikhluta skoruðu gestirnir 5 stig og komu sér vel inn í leikinn og náðu að jafna í 28-28 þegar tvær og hálf mínúta var liðin og í kjölfarið stal Kristinn Marinósson boltanum sem endaði hjá Sveinbirni Claessen sem setti þrist. Við tekur mikið strögl en þegar annar leikhluti var hálfnaður er staðan 34-35 fyrir gestina. Þá forystu létu gestirnir ekki af hendi það sem eftir lifði leiks.

Tindastóll náði aldrei að ógna af neinu gagni, voru alltaf að elta en gerðu heiðarlegar tilraunir til að ná leiknum sér í hag. Það tókst ekki eins vel og þeir sannarlega kunna, misstu gestina fram úr sér með tíu stig er ein og hálf mínúta var liðin af seinni hálfleik sem var dýrkeypt. Heimamenn náðu þó með baráttu að minnka muninn niður í þrjú stig 69-72 er tæpar tvær mínútur vor eftir af þriðja leikhluta. En aftur skildu leiðir og gestirnir leiddu eftir leikhlutann með sjö stigum 72-79        .

Gestirnir reyndust sterkari í upphafi fjórða leikhluta og komu sér í ákjósanlega stöðu með tíu stiga forystu er tvær mínútur voru liðnar 74-84. En þá kom góður einnar mínútu kafli heimamanna, sem voru til alls líklegir eftir gott áhlaup, og skoruðu átta stig gegn einu gestanna og staðan skyndilega orðin 82:85.

En Adam var ekki lengi í Paradís, eins og einhver sagði, því Stólar náðu ekki að setja boltann næstu tvær mínúturnar þar á eftir meðan ÍR náði að bæta sjö stigum við og koma sér í tíu stiga forskot á ný, 82:92 og fjórði leikhlutinn hálfnaður.

Það var of stór biti til að kyngja fyrir Stólana og gestirnir sigldu sigrinum í sína heimahöfn 97:106        og jöfnuðu þar með stöðuna í einvíginu þar sem hvort lið er búið að vinna sinn hvorn leikinn.

Pétur Rúnar Birgisson varð stigahæstur heimamanna með 28 stig, Sigtryggur Arnar Björnsson 22 og Antonio Hester  með 17. Aðrir skoruðu undir 10 stigum.

Í liði gestanna gerði Danero Thomas 28 stig, Matthías Orri Sigurðarson 27, Kristinn Marinósson 20, Hákon Örn Hjálmarsson 18 en aðrir minna en 10 stig.

Næsti leikur liðanna fer fram í Hertz-hellinum í Seljaskóla nk. miðvikudagskvöld og sá fjórði tveimur dögum síðar í Síkinu á Króknum svo ljóst er að nú reynir á styrk og úthald liðanna en þrjá sigurleiki þarf til að komst í lokaúrslitarimmuna gegn KR eða Haukum.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir