Íbúar krefjast lægri umferðahraða
Hulda Jónsdóttir á Sauðárkróki hefur hrundið af stað undirskriftasöfnun þar sem foreldrar og aðstandendur barna á Sauðárkróki fara fram á úrbætur á umferðamenningu innanbæjar. Farið er fram á fleiri hraðahindranir og að umferðahraði í íbúagötum og við skóla verði lækkaður úr 50 niður í 30 km hraða.
-Ég er hreinlega búin að fá nóg. Ég bý við Sæmundargötu og verð vör við að menn eru jafnvel að spyrna á götunni en hinum megin við götuna er leikskóli, dagmóðir að ógleymdum skólanum við Freyjugötu þar sem yngstu börnin fara í skóla. Ég trúi ekki að það þurfi að koma til slys sem verði til þess að þessum málum veðri komið í betra horf. Það er lágmark að lækka umferðahraða og síðan setja niður fleiri og betri hraðahindranir. Ég veit að þessar úrbætur kosta peninga en slys eru óbætanlega, segir Hulda
Hér fyrir neðan má sjá texta á undirskriftaskjali Huldu sem verður komið fyrir í helstu verslanir auk þess sem Hulda mun verða fyrir utan Árskóla við Freyjugötu í fyrramálið.
Þess má geta að Feykir hefur 2 sl. haust tekið málið upp og hafa forsvarsmenn sveitarfélagsins lofað á prenti úrbótum. Þá hefur lögreglan á Sauðárkróki komið með sínar tillögur í málinu en þeim var skilað sl. haust. Síðan hefur ekkert gerst í málinu.
Til sveitastjórnar sveitarfélagsins Skagafjarðar
Við foreldrar og aðrir aðstandendur barna á Sauðárkróki förum fram á úrbætur á umferðamenningu hér í bæ. Eins og staðan er í dag má keyra á allt að 50 km hraða á öllum götum bæjarins. Hvort sem aðstæður leyfa það eða ekki. Í sambærilegum sveitafélögum hefur umferðahraði í íbúagötum og við skóla verðu lækkaður niður í 30 km hraða. Þá eru hraðahindrunum stórlega ábótavant. Það er mikill umferðahraði hér í bæ og við óttumst hreinlega að ef ekkert verði að gert endi þetta með slysi.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.