Íbúa mótmæla sorpförgunarsvæði í Viðvíkursveit
Íbúar í Viðvíkursveit og Óslandshlíð hafa sent sveitarfélagi Skagafjarðar erindi, þar sem farið er fram á að fyrirhugað sorpförgunarsvæði við Brimnes skammt ofan við Kolkuós verði tekið út af aðalskipulagi sveitafélagsins sem nú er í auglýsingaferli. Allflestir íbúar sem búa nálægt og/eða eiga land nálægt þessu fyrirhugaða sorpförgunarsvæði rituðu undir mótmælin.
Í ályktun frá hópnum segir; -Kolkuós er einn merkasti sögustaður Skagafjarðar auk þess að vera ein af mesta náttúruperlum Skagafjarðar. Fjöldi útivistarfólks auk ferðamanna nær og fjær leggjur leið sína á svæðið til að njóta einstakrar náttúrufegurðar, hreinleika og menningararfs. Svæðið býður upp á frábæra möguleika á frekari eflingu og uppbyggingu sem að engu geta orðið svo lengi sem tillaga að sorpförgunarsvæði er á aðalskipulagi. Auk þess er tillagan afar fráhrindandi fyrir hugsanlega nýbúa (sem hefur fjölgað verulega undanfarið) og sumarbústaðaeigendur sem vilja búa um sig á svæðinu. Tilkoma sorpförgunarsvæðis við Brimes í Viðvíkursveit myndi skaða búsetuskilyði verulegu á svæðinu en hátt í 20 býli eru í innan við 4.5 km farlægð frá fyrirhuguðu sorpurðunarsvæði. Þessi urðunarstaður myndi valda óásættanlegum óþægindum vegna ólyktar, foks og sjónmengunar. Einnig dregur sorpförgunarsvæði að sér mikið af fugli sem getur skaðað framleiðslu á svæðinu og aukið verulega smithættu bústofna.
Athygli vekur að áform um sorpförgunarsvæði á þessu svæði voru einnig uppi fyrir tæpum 10 árum og lögðust íbúar þá sem nú harðlega gegn því enda var þá fallið frá þessum áformum. Nú reynir sveitastjórnin enn að koma sorpurðunarsvæðinu inn, hvað eru þessir menn að hugsa? Furða vekur einnig sú fásinna að skipuleggja sorpförgunarsvæði samhliða útivistasvæði milli Brimnes, Kolkuós og Ásgarðs sem er, ásamt skíðasvæðinu á Tindastóli, stærsta skilgreinda útivistarsvæði sveitafélagsins.
Því er skorað eindregið á sveitastjórn Skagafjarðar að fjarlægja með öllu tillögu um fyrirhugað sorpförgunarsvæði.
Sveitstjórnin hlýtur að sjá sóma sinn í því að taka mark á rödd íbúa sveitarfélagsins og tryggja áframhaldandi búsetuskilyrði, hreinleika og náttúrufegurð eins vinsælasta útivistasvæðis í Skagafirði. Að sama skapi hljótum við Skagfirðingar að sjá sóma okkur í því að standa vörð um jafn sögulegan stað og Kolkuós er.
Hlín Mainka Jóhannesdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.