Hvíti riddarinn mátaði Stólana í Mosfellsbænum
Ævintýri Tindastólspilta í úrslitakeppni 4. deildar varð bæði stutt og dapurlegt en liðið féll út við fyrstu hindrun. Það var kannski óheppni að dragast á móti liði Hvíta riddarans úr Mosfellsbæ sem er öflugur andstæðingur en þegar komið er í úrslitakeppnina er ekkert gefið. Sá Hvíti vann fyrri leik liðanna sem fram fór á Króknum, 1–2, eftir jafnan leik en í kvöld voru þeir einfaldlega betri og unnu leikinn 4-1 og einvígið þar með 6-2 og sendu Stólana í frí sem er síður en svo kærkomið.
Það var ljóst eftir fyrri leikinn að Stólarnir máttu ekki gera mörk mistök í kvöld því andstæðingurinn var með gæði fram á við og varnarleikurinn mjög skipulagður. Varnarleikur Tindastóls hefur hins vegar ekki verið nógu sterkur í sumar og liðið fengið á sig of mörg keimlík mörk þar sem andstæðingurinn hefur sloppið í gegnum vörnina og komist á auðan sjó. Sú saga hélt áfram í kvöld því Eiður Andri Thorarensen slapp í gegnum vörnina á 21. mínútu og gerði fyrsta mark leiksins. Bæði lið fengu færi til að skora áður en Patrekur Orri Guðjónsson bætti við öðru marki Hvíta riddarans á 31. mínútu. Anton gerði vel í marki Tindastóls og kom í veg fyrir að heimamenn bættu við marki fyrir hlé. Staðan því 2-0 í hálfleik og ljóst að Stólarnir þurftu að skora þrjú mörk til að komast áfram.
Donni gerði breytingu í hálfleik, tók Falcon út af og skellti Ingva Hrannari upp á topp og skipti í þriggja manna vörn vitandi það að liðið þurfti að setja kraft í sóknina. Draumurinn varð hins vegar að martröð á 57. mínútu þegar Patrekur bætti við öðru marki sínu í leiknum en að þessu sinni úr víti. Kolfinnur Ernir Kjartansson gerði síðan fjórða mark heimamanna á 85. mínútu áður en Benedikt Gröndal lagaði stöðuna fyrir Stólana með laglegu marki á 90. mínútu.
Ekki einfalt mál að klóra sig upp úr 4. deildinni
Það var svo sem vitað fyrir fram að það er bölvað basl að komast í gegnum úrslitakeppni 4. deildar en það var að sjálfsögðu stefnan hjá Stólunum. Auk þess sem varnarleikurinn var ekki nógu traustur þá var það skarð fyrir skildi þegar Spánverjinn Basi yfirgaf Stólana í sumar því ekki náðist að krækja í nógu góða leikmenn í hans stað í framlínu liðsins.
„Þetta var slakur leikur af okkar hálfu því miður,“ sagði svekktur Donni þjálfari þegar Feykir spurði hann hvað honum hefði fundist um leikinn. „Strákarnir reyndu allt hvað þeir gátu en það gekk því miður bara ekkert upp hjá okkur. Hvíti riddarinn var einfaldlega betri varnarlega og sóknarlega i þessu einvígi. En þetta er ákveðinn lærdómur fyrir okkur alla og við munum halda áfram og leggja enn harðar að okkur til að komast upp um deild að ári,“ sagði Donni.
Það er því annað ár í 4. deild framundan en nú með breyttu fyrirkomulagi því 5. deildinni verður bætt við næsta sumar og Tindastóll því ekki lengur í neðstu deild – sem er auðvitað frábært!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.