Hvernig á að meðhöndla jólatré?
Til að jólatréð haldist ferskt yfir hátíðarnar er nauðsyn að beita nokkrum einföldum aðferðum. Eiga þessar leiðbeiningar við um allar trjátegundir. Þegar heim er komið með tréð af sölustað þarf það að standa á köldum stað fram að jólum. Ágætt er að láta það standa úti á svölum eða í kaldri geymslu.
Bílskúrar eru oft full heitir til að teljast góður geymslustaður fyrir jólatré. Gott að láta tréð standa í vatni. Áður en tréð er sett upp, er nauðsynlegt að saga nýja sneið neðan af stofninum. Ágætt er að þessi sneið sé um 5-10 cm þykk. Þá fjarlægjum við kvoðutappa, sem hugsanlega hefur myndast við sárið þegar tréð var höggvið. Þannig opnast betur æðar trésins sem auðveldar því vatnsupptöku, sem er afar mikilvæg ef tréð á að haldast ferskt.
Mikilvægt er að tréð standi í góðum vatnsfæti. Þegar keyptur er fótur þarf að hafa það í huga að hann taki nóg vatn, helst ekki minna en 1 lítra. Ágætt húsráð er að fyrsta áfyllingin sé með heitu vatni, 80-100°C. Það er talið opna betur æðar trésins og örva tréð til vatnsupptöku. Síðan þarf tréð að standa í vatni allar hátíðarnar. Jólatrjáfóturinnmá aldrei tæmast af vatni.
Sé þessum einföldu leiðbeiningum fylgt á jólatréð að standa ferskt yfir hátíðarnar. Þá á að skila trénu til endurvinnslu, þar sem það endar yfirleitt í jarðgerð.
Höfundur er Jón Geir Pétursson, skógfræðingur
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.