Hver vill ekki skella bévaðri verðbólgunni á brennuna?
Þá er það Blönduósingurinn Guðmundur Haukur Jakobsson sem gerir upp árið. Ef rennt er yfir upplýsingar á Facebook-síðu hans má sjá að hann er forseti sveitarstjórnar í Húnabyggð, matreiðslumaður og kúskari í félagsheimilinu á Blönduósi og pípulagnameistari hjá N1 píparanum. Í haust varð hann síðan einn alfrægasti eldislaxaháfari landsins. Ætli það liti uppgjör ársins?
Hver er maður ársins? – Það eru margir sem hafa gert góða hluti á árinu, en ef ég á að nefna einn þá er Reynir Grétarsson svo sannarlega búinn að gera stóra hluti á stuttum tíma í gamla bænum á Blönduósi, ég sleit barnsskónum í gamla bænum og mér þykir vænt um hans stóra framlag þar.
Hver var uppgötvun ársins? – Klárlega hversu kolröng staða orkusveitarfélaga er varðandi tekjur af orkumannvirkjum.
Hvað var lag ársins? – Á spotify listanum mínum voru Imagine Dragons fyrirferðarmiklir og lagið West coast á toppnum hjá þeim, svo er Another Love með Tom Odell þrælmagnað líka.
Hvað gerðirðu ekki á árinu sem þú ætlaðir þér að gera? – Það er langur listi, sinnti fjölskyldunni ekki nógu vel , málaði ekki húsið og margt fleira, það vantar alltaf tíma.
Hvað er eftirminnilegast frá árinu 2023? – Eldislaxafárið, við lokuðum laxastiganum í Blöndu og vörnuðum því að eldislaxinn kæmist fram á dal til að hrygna. Rúmlega 50 laxa sendum við til Hafró og allt staðfestir strokulaxar frá Kvígindisdal í Patreksfirði árið 2023.
Hvaða þrjú orð lýsa árinu best? – Orkumál – starfsnefnd var skipuð á vegum samtaka orkusveitarfélaga. Hlutverk nefndarinnar var að vinna tillögur að breytingum hvað varðar tekjur sveitarfélaga af orkuframleiðslu, leggja fram drög að nýju lagaumhverfi um orkuvinnslu á Íslandi og koma á virku samtali allra hagaðila í samráði við stjórn Samtaka orkusveitarfélaga. Ef rétt er að staðið í frágangi þessara mála er það mitt mat að hér geti verið á ferðinni stærsta heildstæða byggðaaðgerð síðari tíma. Uppbygging – mikil uppbygging hefur verið á Norðurlandi vestra og mín spá er að hún eigi eftir að verða ennþá meiri, okkar landsvæði er tiltölulega öruggt gagnvart náttúruvá, hérna eru gríðarleg tækifæri í ferðaþjónustu, erum við ekki bara landshluti tækifæranna. Strokueldislax – laxastofninn í íslensku ánum er viðkvæmur og síst af öllu má hann við árásum eins og þessari af völdum sjókvíaeldis.
Hverju viltu skella á brennuna og hvers vegna? – Hver vill ekki skella bévaðri verðbólgunni á brennuna, hún er að fara hrikalega illa með marga þessi dægrin.
Hvað viltu sjá gerast árið 2024? – Áframhaldandi uppbyggingu á Norðurlandi vestra og ennþá betri búsetu skilyrði, eins og ég sagði áðan þá erum við landshluti tækifæranna.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.