Hvatning á glæsilegu Ungmennalandsmóti


Jón Bjarnason ráðherra

Forseti Íslands, forsetafrú, ágætu keppendur, foreldrar, skipuleggjendur og aðrir landsmótsgestir. Gleðilega hátíð.
Það er mér sérstök ánægja að fá tækifæri til að ávarpa ykkur á þessari glæsilegu íþrótta- og fjölskylduhátíð. Ég færi ykkur einlæga hátíðarkveðju Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra en hún hafði því miður ekki tök á að mæta hér í kvöld.
Ég fagna því sérstaklega að mótið skuli nú haldið hér á Sauðárkróki. Skagafjörðurinn var mín heimasveit um 20 ára skeið. Eitt af ungmennafélögunum hér um slóðir, Ungmennafélagið Hjalti, fóstraði börnin mín og efldi að dug og þroska. Skagfirsk náttúrufegurð, skagfirskt manngildi og skagfirskur dugur er svo sannarlega góð umgjörð þessa glæsilega unglingalandsmóts.
Krakkar! Þið eruð þátttakendur á einni stærstu íþróttahátíð Íslands.
 En þið eruð einnig hér í risastórri, skemmtilegri útilegu, allsherjar fjölskylduhátið.  Og eins og þið öll vitið getur margt komið upp á í útilegum. Eruð þið ekki öll vel búin, með regngalla, lopapeysur og prjónasokka?  Gleymdi nokkur svefnpokunum?  Og vonandi eruð þið öll vel nestuð af góðum íslenskum mat. Ef ekki, er hægur vandinn að skreppa til Bjarna Har og kaupa harðfisk eða líta inn í bakaríið og fá sér landsfræga súkkulaðisnúðana þar. Hér er allt innan seilingar.

„Fyrir land sitt og þjóð“
Fyrsta ungmennafélagið var stofnað á Akureyri fyrir 103 árum eða 7. janúar 1906. Tilgangur félagsins var skv. fundargerð stofnfundarins:

1. Að reyna af alefli að vekja löngun hjá ungdóminum til þess að starfa fyrir sjálfan sig, land sitt og þjóð.
2. Að temja sér að beita starfskröftum sínum í félagi og utan félags.
3. Að reyna af fremsta megni að styðja, viðhalda og efla allt það sem er þjóðlegt og rammíslenskt, er horfir til gagns og sóma fyrir hina íslensku þjóð.

Þetta voru göfug markmið enda urðu ungmennafélögin strax mikil siðbótar- og mannræktar­félög. Þau beittu sér t.d. gegn áfengisneyslu, fjármálabraski, þéringum og fyrir verndun tungumálsins. Í íþróttunum var lögð áhersla á líkamlega reisn og góða fram­göngu. Við skyldum bera höfuðið hátt og ganga rösklega fram. Fegurð íþróttanna, heiðarleiki og drengskapur í fornum anda voru höfuðdyggðirnar. ÍSÍ var svo stofnað árið 1912, byggt á svipuðum gildum og ungmennafélögin. Sjálfstæðisbaráttan ólgaði í brjóstum þjóðarinnar. Fullveldið var í sjónmáli.

Einn fyrir alla og allir fyrir einn
Sérstök ástæða er til að benda á þessa þrjá grunnþætti í stofnskrá ungmennafélagsins á Akureyri og raunar ungmennahreyfingarinnar allrar. Er það ekki þannig að sjálfstæðisbarátta Íslendinga á þessum tíma búi með okkur öllum og móti okkur til framtíðar? Er það ekki þess vegna sem sem við erum svo á verði gegn allri ásókn í fullveldi okkar og auðlindir?
Ungmennafélögin hafa svo sannarlega reynt að halda í heiðri þessi gömlu góðu gildi og það er ákaflega dýrmætt að vita að þau skuli reiðubúin til þess áfram. Á ýmsan hátt erum við Íslendingar nú í sömu sporum og þegar við börðumst fyrir sjálfstæði landsins eftir aldalanga hnignun og fátækt. Nú sem þá dreymir okkur um hið nýja Ísland, byggt á gildum heiðarleika, jafnréttis og réttlætis, heilinda og drengskapar. Þið, unga íþróttafólk, ég heiti á ykkur að verða áfram framvarðarsveitin í þeirri baráttu. Megi kjörorð ungmennafélaganna,  einn fyrir alla og allir fyrir einn hljóma hátt og hvellt á þessu glæsilega íþróttamóti.
Góðir hátíðagestir, Íslandi allt!
Ávarp Jóns Bjarnasonar landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra á unglingalandsmóti UMFÍ á Sauðárkróki 31. júlí 2009

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir