Hvatarmenn sigruðu Reynismenn 2-0
Hvatarmenn tóku á móti Reyni úr Sandgerði í sínum fyrsta leik í 2. deild á Blönduósvelli í á laugardag. Hífandi rok var á Norðurlandi og fátt var um fína drætti og ljóst frá byrjun að engin samba bolti yrði spilaður í dag. Leikmenn beggja liða áttu í vandræðum með að byggja upp almennilegt spil.
Fyrri hálfleikurinn fór aðallega fram á annarri hliðinni á vallarhelmingi Hvatarmann þar sem vindurinn vildi að hann færi fram og voru það Reynismenn sem sóttu meira en lítið kom útúr þeirra leik. Meira var um tilviljanir heldur en skipulagða knattspyrnu hjá báðum liðum. Hvatarmenn beittu þó skyndisóknum og upp úr einni þeirra fengu þeir aukaspyrnu rétt utan vítateigs sem Óskar Snær Vignisson tók en skaut í varnarvegginn, upplagt tækifæri sem misfórst.
Það voru svo Reynismenn sem fengu eina almennilega færi fyrri hálfleiksins þegar leikmaður þeirra komst upp að endamörkum, sendi boltann fyrir markið þar sem Egill Jóhannsson kom aðvífandi en hitti boltann illa og átti markvörður Hvatar Ari Kristinsson ekki í teljandi vandræðum að verja það skot. Reynismenn fengu svo aukaspyrnu rétt utan vítateigs Hvatarmann, ekki á ósvipuðum stað og hjá Óskari, en niðurstaðan sú sama og í þeirri fyrri, í varnarvegginn fór knötturinn. Staðan markalaus þegar dómari leiksins flautaði leikmenn til búningsherbergja.
Í seinni hálfleik snérist dæmið algjörlega við. Hvatarmenn sóttu meira, en Reynismenn beittu skyndisóknum á móti vindi. Upp úr einni þeirra fengu Reynismenn ágætis tækifæri en Hvatarmenn náðu að hreinsa frá marki eftir þvögu í teignum. Það dróg svo loksins til tíðinda eftir rúman klukkutíma leik þegar Hvatarmenn sóttu stíft að marki Reynismanna. Bjarni Pálmason kom boltanum á Mirnes Smajlovic inn í teignum, þar snéri Mirnes af sér varnarmann og lagði boltann í fjærhornið og Hvatarmenn komnir með forystu.
Lítið gerðist næstu mínútur leiksins annað en mikil barátta og misheppnaðar sendingar beggja liða. Rokið sá til þess að boltinn var að mestu utanvallar eða inná vallarhelmingi Reynismanna þar sem Hvatarmenn pressuðu stíft en Reynismenn áttu sínar skyndisóknir en ekkert kom út úr þeim við mark Hvatar. Það var svo þegar um tvær mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma að Jón Trausti Guðmundsson kom Hvatarmönnum í 2-0 eftir varnarmistök Reynismanna en rokið hafði einnig mikið að segja til um ferð boltans á leið sinni til Jóns Trausta sem kláraði færið með stæl en hann klippti boltanum á marknetið.
Lítið átti eftir að gerast knattspyrnulega séð það sem eftir lifði leiks en þegar um 5 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma kom stungusending inn fyrir vörn Hvatarmanna, sóknarmaður Sandgerði átti í kapphlaupi við Albin Biloglavic leikmann Hvatar sem endaði með því að Albin kom boltanum í horn en þeir rekast saman öxl við öxl um leið og falla báðir. Dómari leiksins dæmir aukaspyrnu rétt utan vítateigs Hvatarmanna og með óskiljanlegum hætti spjaldar hann Hvatarmanninn sem kominn var með gult spjald og þar með rautt, með rétt sagt ótrúlegur dómur.
Leikurinn fjaraði svo út og fyrsti sigur Hvatarmanna þetta sumarið staðreynd í leik sem kraftmikill vindurinn stjórnaði frá byrjun til enda. Tilviljanakenndur fótbolti að mestu leyti en Blönduósingar skoruðu tvö mörk en Sandgerðingar ekkert og fá Hvatarmenn því þrjú stig. Góð byrjun á Íslandsmótinu hjá Hvatarmönnum en Sandgerðingar þurfa nú að girða sig í brók eftir tvo tapleiki í byrjun sumar, en þeir töpuðu í Visa bikarnum gegn ÍH um síðustu helgi.
Hvatarmenn eiga erfiðan leik fyrir höndum á þriðjudaginn en þá koma Þórsarar frá Akureyri í heimsókn á Blönduós í annarri umferð í Visa bikarnum.
/hvotfc.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.