Hvatarmenn rændir í miðjum fótboltaleik
Á Húna.is er sagt frá því að Hvatarmenn hefðu orðið fyrir heldur óskemmtilegri reynslu, á laugardaginn, er þeir öttu kappi við Berserki í síðustu umferð riðlakeppni Lengjubikars KSÍ.
Leikið var að Ásvöllum í Hafnarfirði og fóru leikar svo að Hvatarmenn unnu leikinn 4-2 og eru komnir í úrslit í B-deild karla. Ekki voru það úrslit leiksins sem voru svona óskemmtileg heldur það, að á meðan leik stóð voru þeir rændir ýmsum eigum þeirra í búningsklefa liðsins. Eftir leik kom í ljós að óprúttnir aðilar höfðu látið greipar sópa og haft á brott með sér nokkuð af peningum, símum, æpottum, fótboltaskóm og fatnaði eins og gallabuxum og heilli íþróttatösku með öllu.
Ekki er vitað hverjir voru þarna á ferðinni en málið er í höndum lögreglunnar í Hafnarfirði og aðstandendum Ásvalla.
/Húni.is
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.