Hvatarmenn lögðu Hamarsmenn 2-0 á laugardag

Hvatarmenn tóku á móti Hamarsmönnum á laugardag og sigruðu þá með tveimur mörkum gegn engu. Hvöt hafði nokkra yfirburði í fyrri hálfleik en leikurinn jafnaðist nokkuð í þeim síðari án þess þó að Hamarsmenn gerðu sig líklegan til að koma inn marki.

Hvatarmenn hófu leikinn og geystust í sókn og fengu gott færi á fyrstu mínútu leiksins en skot Mirnes Smajlovic fór yfir markið. Strax í næstu sókn fengu Hamarsmenn ákjósanlegt færi eftir mistök í vörn Hvatar en Milan Markovic náði að hreinsa en nokkur heppnisstimpill var yfir færi þessu. Bjarni Pálmason fékk síðan virkilega fínt færi á fjórðu mínútu en náði því miður ekki góðu skoti og boltinn fór yfir markið. Bjarni átti eftir að bæta fyrir það tveimur mínútum síðar er Hvatarmenn fengu aukaspyrnu á miðjum vellinum. Sending Óskars Snæs rataði á Milan sem átti gott skot á mark Hamars, en markmaðurinn varði vel. Boltinn barst síðan til Bjarna sem skoraði fyrsta mark Hvatar með góðu skoti.

Á níundu mínútu fengu Hvatarmenn hornspyrnu eftir að Björn markvörður Hamars varði vel skot Mirnes en upp úr hornspyrnunni skoraði Jens Elvar Sævarsson mark fyrir Hvöt og þeir í góðum málum í upphafi leiks.

Þarna hefði maður getað haldið að Hvatarmenn létu Hamarsmenn finna fyrir því en næstu 20 mínútur fóru í miðjuþóf en það var ekki fyrr en á 34. mínútu að Bjarni komst inn í lélega sendingu markvarðar Hamars og var hann skyndilega kominn í gegn ásamt Mirnes og Jóni Kára Eldon. Bjarni ákvað að skjóta á markið í stað þess að gefa á annað hvort Mirnes eða Jón og markmaðurinn varði skot hans.

Staðan var 2-0 í hálfleik en síðari hálfleikur einkenndist af stöðubaráttu á miðjunni og kvartfærum á báða bóga þó svo að heimamenn væru með nokkra yfirburði á vellinum án þess að skapa sér afgerandi færi. Þó fengu heimamenn dauðafæri á annarri mínútu uppbótartíma er Jón Kári og Benjamín Gunnlaugarson prjónuðu sig í gegnum vörn gestanna en Benjamín skrúfaði boltann framhjá fjærstönginni en þar hefði hann getað klárað leikinn endanlega fyrir heimamenn.

Nú eru Hvatarmenn komnir með 7 stig og eru í 4. sæti deildarinnar en Hamarsmenn eru með 4 stig í 6. sæti. Næsti leikur Hvatarmanna er útileikur gegn Hetti en Hamarmenn eiga heimaleik gegn BÍ/Bolungarvík. 

/hvötfc.is

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir