„Hvar er kjarkurinn?“
Ný gjaldskrá fyrir Skagafjarðarveitur sem gerir m.a ráð fyrir 70% afslætti fyrir fyrirtæki sem notar meira en 100.000 þús. rúmmetra af heitu vatni var samþykkt í sveitarstjórn í gærkvöldi með atkvæðum meirihluta sjálfstæðisflokks og framsóknarflokks. Tillögu fulltrúa VG og óháðra og Skagafjarðarlista um að þróa frekar og útfæra hugmyndir og reglur um tilboðskjör á heitu og köldu vatni til mismunandi stórra notenda og atvinnugreina, reglur sem stæðust einnig væntingar um skýrleika og gegnsæi og væri hægt að nota í markaðs,- og kynningarstarfi sveitarfélagsins var hinsvegar hafnað.
Ef snúa á vörn í sókn í uppbyggingu á fjölbreyttu atvinnulífi í héraðinu er mikilvægt að nýta styrk Skagafjarðarveitna til að laða að nýja starfsemi og hvetja til nýsköpunar,- og frumkvöðlastarfs. Vel hefði farið á því að atvinnumálanefnd hefði fengið það metnaðarfulla, en um leið vandasama verkefni að þróa frekar og útfæra hugmyndir og reglur um tilboðskjör á heitu og köldu vatni til mismunandi stórra notenda og atvinnugreina. Reglur sem stæðust einnig væntingar um skýrleika og gegnsæi og væri hægt að nota í markaðs,- og kynningarstarfi sveitarfélagsins. Meirihluti sveitarstjórnar hafnaði á sveitarstjórnarfundi 24. júní tillögu um slíkt frá fulltrúum VG og óháðra og Skagafjarðarlista og spilaði þannig niður hlutverk atvinnumálanefndar sveitarfélagsins.
Rörsýn meirihlutans á tækifæri?
Það má því segja að nálgun meirihlutans sem staðfest var á sama fundi og miðast einungis við mikla afslætti, 70% fyrir einstaka stórnotendur og tímalaust heimildarákvæði án viðmiðana eða mismunandi útfærslur gagnvart öðrum notendum, lýsi ákveðnu kjarkleysi og uppgjöf gagnvart aðkallandi og krefjandi viðfangsefni: Því að móta heildstæða stefnu og reglur um hvernig megi nýta Skagafjarðarveitur enn betur til að efla samkeppnishæfni fyrirtækja sem staðsetja sig í Skagafirði. Fyrst um sinn virðist þessi gjaldskrárbreyting meirihlutans í raun, aðeins gagnast einu fyrirtæki í auknum afsláttum.
Afslættir til stórnotenda geta numið háum upphæðum
Stórnotandi sem stefnir á næstu árum á að fá afhent meira en 200.000 rúmmetra af heitu vatni á Sauðárkróki þyrfti án afslátta að greiða fyrir það magn 94,93 kr per m3 sem gera tæplega 19 milljónir, en með 70% afslætti einungis um 5,7 milljónir. Það léttir vissulega undir i rekstri slíks fyrirtækis að Skagafjarðarveitur taki á sig 13,3 milljónir árlega í veittum afsláttum og um 20 milljónir ef vel gengur og ársnotkunin fer í 300.000 m3. Veiturnar fá meiri tekjur af aukinni vatnssölu en þurfa á móti að virkja vatnið og kosta hitaveitulagnir.
Mikilvægar upplýsingar komu fram í svari við fyrirspurn
Á sveitarstjórnarfundinum fengust svör við spurningum sem beint var skriflega til meirihlutans um helstu viðskiptavini Skagafjarðarveitna og sölu á heitu og köldu vatni, sem ekki lágu fyrir þegar veitunefnd eða byggðaráð fjölluðu um tillögur að fyrirkomulagi nýrra afsláttarkjara. Í svörunum felast gagnlegar upplýsingar fyrir sveitarstjórnarfulltrúa, en mikilvægt er að þeir geti kynnt sér gögn og upplýsingar og tekið ákvörðun á forsendum meðalhófs og jafnræðis. Því er ekki ofsagt að fulltrúar í sveitarstjórn hefðu haft gagn af því að hafa meiri gögn undir höndum fyrir sveitarstjórnarfundinn þar sem gjaldskráin var til afgreiðslu. Þær upplýsingar hefðu einnig komið atvinnumálanefnd að góðum notum við greiningu og tillögugerð. Aðkomu atvinnumálanefndar að tillögugerð og útfærslum á afsláttarkjörum hitaveitu til stórnotenda og nýsköpunar,- og frumkvöðlafyrirtækja í Skagafirði var hinsvegar hafnað af meirihluta sveitarstjórnar.
Málið verði tekið upp aftur af meiri metnaði
Það er von okkar sem skipum minnihluta sveitarstjórnar að þegar sveitarstjórnarfulltrúar snúa endurnærðir til starfa eftir gott sumarfrí í haust, verði málið tekið upp aftur og farið í raunverulega vinnu við að smíða heildstætt regluverk um hvernig megi nýta Skagafjarðarveitur með mismunandi útfærslum afsláttarkjara til nýsköpunar og enn frekari atvinnusköpunar. Skýrar og gegnsæjar reglur sem nýtast í markaðs,- og kynningarstarfi sveitarfélagsins.
Bjarni Jónsson, oddviti VG og óháðra
Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir, oddviti Skagafjarðarlista
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.