Húnvetningar höfðu sigur á Hlíðarenda
Lið Kormáks/Hvatar náði að styrkja stöðu sína í 3. deildinni nú um helgina en þá var leikin síðasta umferðin í fyrri umferð mótsins. Þá sóttu Húnvetningar heim kappana í Knattspyrnufélagi Hlíðarenda sem er einskonar B-lið Vals og var leikið á Valsvellinum. Eftir rólegheit í fyrri hálfleik létu liðin sverfa til stáls í þeim síðari. Heimamenn náðu fyrsta högginu en í kjölfarið fylgdi leiftursókn gestanna sem unnu að lokum 1-3 sigur og náðu þar með að lyfta sér upp úr mestu botnbaráttunni.
Gestirnir voru meira með boltann í fyrri hálfleik en lið KH, sem situr á botni deildarinnar, reyndi að beita skyndisóknum en höfðu ekki erindi sem erfiði. Staðan 0-0 í hálfleik en heimamenn þustu úr startblokkinni í þeim síðari og Sigfús Kjalar Árnason kom þeim yfir eftir tveggja mínútna leik. Húnvetningar blésu þá í herlúðra og á 51. mínútu jafnaði Goran Potkozarac metin. Ingibergur Kort kom svo liði Kormáks/Hvatar í forystu á 57. mínútu og hann var aftur á ferðinni á 76. mínútu og gerði þar með út um leikinn.
Með sigrinum náðu Húnvetningar að fjarlægjast fallsvæðið þó þeir sitji sem fyrr í níunda sæti deildarinnar. Nú er lið þeirra með 14 stig og komið í hóp þeirra félaga sem eru að berjast um miðja deild en það getur að sjálfsögðu brugðið til beggja vona í boltanum. Næsti leikur Kormáks/Hvatar er gegn liði ÍH úr Hafnarfirði sem eru með níu stig og í fallsæti og sigur í þeim leik væri dýrmætur. Leikurinn fer fram á Blönduósvelli næstkomandi laugardag, í miðri Húnavöku, og hefst kl. 17:00. Allir á völlinn og áfram Kormákur/Hvöt!
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.