Húnavakan er eins og Volvo
Sara Lind Kristjánsdóttir býr ásamt Kristófer Loga syni sínum á Melabraut á Blönduósi. „Fluttum þangað í nóvember á síðasta ári. Annars er ég með annan fótinn á Hvammstanga þar sem Logi kærasti minn býr ásamt börnunum hans, Herdísi Erlu og Ými Andra. Ég starfa sem félagsmálastjóri Austur-Húnavatnssýslu og hef gert síðan í ágúst 2016,“ segir Sara Lind.
„Fyrir utan vinnu þá erum við dugleg að finna okkur eitthvað að gera og helst þá einhverja útiveru. Logi er á fullu í hestum svo ég er aðeins að byrja að spreyta mig þar og svo er ég aðeins komin af stað í golfið sem er virkilega skemmtilegt og frábær félagsskapur í kringum þetta allt saman.“
Hvað ætlar þú að gera á Húnavöku í ár? „Heyrðu, við mæðgur verðum allavega með vöfflukaffi á föstudeginum og allir velkomnir í Vilko vöfflur og með'í. Annars ætla ég bara að njóta með fjölskyldu og vinum líkt og síðustu ár.“
Ef Húnavaka væri bíll, hvaða bíll væri hún? „Verðum við ekki bara að segja Volvo. Flott, örugg og fullkomin fyrir fjölskylduna.“
Hvenær var eftirminnilegasta Húnavakan? „Úfff... það er erfitt að segja, þær eru margar eftirminnilegar. Ætli það sé ekki bara einhver af þeim Húnavökum þar sem allt hefur spilað með; veðrið, fólkið mitt allt á staðnum og góð dagskrá.“
Hvernig lýsir þú Húnavöku í fimm orðum? „Samvera - samheldni - vinátta - gleði - gaman.“
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.