Hrútur frá Sveinsstöðum hlutskarpastur
Fjárrækarfélag Sveinsstaðahrepps hélt vel heppnaða hrútasýningu fimmtudaginn 5. október síðast-liðinn í hesthúsinu að Hvammi II, þar sem Haukur og hans fólk tóku vel á móti fólki. Góð stemming og fjölmenni kom til að fylgjast með. Alls voru hrútar frá níu bæjum sem tóku þátt.
Dómarar kvöldsins voru þeir Guðmundur Waage í Skálholtsvík og feðgarnir Jóhann Ragnarsson og Ármann Jóhannsson í Laxárdal. Ekki var stuðst við fyrri dóma í þessari keppni heldur var það dagsformið sem gilti.
Í flokki mislitra sigraði svart-kollóttur hrútur frá Hjallalandi, vel gert lamb með mikil lærahold. Í kollótta flokknum var gaman að sjá hversu margir efstu hrútanna báru ARR genið en þann flokk sigraði Gullmolasonur frá Steinnesi, breitt lamb með mikil lærahold. Flestir hrútar komu fram í hyrnda flokknum og þar sigraði hrútur frá Sveinsstöðum og var hann einnig valinn besti hrútur sýningarinnar enda afar jafnvaxinn og holdfylltur. Hann er undan kaupahrútnum Snarta frá Snartarstöðum og 19-058 sem rekur ættir sínar einnig í Snartarstaði.
Efstu fimm í hverjum flokki:
Mislitir
1. Nr. 152 frá Hjallalandi, f. Dagur frá Hraunhálsi.
2. Nr. 3074 frá Syðri-Brekku, f. 21-205 frá Syðri-Brekku.
3. Nr. 456 frá Kornsá, f. Kústur 19-889.
4. Nr. 3286 frá Syðri-Brekku, f. 21-205 frá Syðri-Brekku.
5. Nr. 741 frá Hjallalandi, f. Dagur frá Hraunhálsi.
Hvítir kollóttir
1. Nr. 95 frá Steinnesi, f. Gullmoli 22-902.
2. Nr. 20 frá Hofi, f. Gullmoli 22-902.
3. Nr. 130 frá Hofi, f. Glæsir 19-887.
4. Nr. 67 frá Steinnesi, f. Barri frá Þernunesi.
5. Nr. 170 frá Ási, f. Gullmoli 22-902.
Hvítir hyrndir
1. Nr. 148 frá Sveinsstöðum, f. Snarti frá Snartarstöðum.
2. Nr. 448 frá Steinnesi, f. Brandur frá Steinnesi.
3. Nr. 36 frá Bjarnastöðum, f. Alli 19-885.
4. Nr. 607 frá Sveinsstöðum, f. Austri 20-892.
5. Nr. 3036 frá Akri, f. Kokteill frá Akri.
Fréttatilkynning/GG
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.