Hroki og hleypidómar
Það býr gott fólk í Skagafirði. Héraðið er víðlent og fallegt og státar af merkri sögu og einstakri náttúru. Slagorð sveitarfélagsins „tími til að lifa“ fangar vel það fjölbreytta mannlíf, samkennd og glaðværð sem einkennir Skagfirðinga.
Atvinnulíf svæðisins hefur lengi byggst upp á öflugum landbúnaði, sjávarútvegi, úrvinnslu matvæla og opinberri þjónustu og hefur á umliðnum árum tekið miklum breytingum í átt til enn meiri fjölbreytileika. Íbúar binda nú ekki síður vonir við vaxandi ferðaþjónustu, þróunar- og hátæknistarf á matvælasviði, margvíslegt frumkvöðlastarf og öflugt skóla- og rannsóknastarf hjá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra og Hólaskóla - Háskólanum á Hólum og fleirum.
Niðurskurður ríkisins bítur
Þó eru ský á himni. Ekkert samfélag á landinu hefur mátt búa við jafn mikinn samdrátt í opinberri þjónustu og fækkun ríkisstarfa síðustu ár. Í tíð tveggja síðustu ríkisstjórna hafa um 60 opinber störf í Skagafirði verið lögð niður eða flutt til Reykjavíkur og er ekkert lát á. Störfin og þjónustan sem lögð hefur verið af spannar verkefnasvið flestra ráðuneyta. Heilbrigðisstofnunin á Sauðárkróki hefur verið lögð niður sem slík og sett með skertri starfsemi inn í nýja stofnun sem stýrt er utan Skagafjarðar. Héraðið kemst vart á blað í samgönguáætlun til næstu ára og er sniðgengið í byggðaaðgerðum og stefnumörkun stjórnvalda. Framganga ríkisstjórnar og Alþingis gagnvart Skagafirði á beinlínis stóran þátt í fólksfækkun siðustu ára.
Sókn er besta vörnin
Heimamenn í Skagafirði hafa hinsvegar staðið sameinaðir til varnar byggð og opinberri þjónustu í héraðinu og í aðgerðum til að auka möguleika til starfa og búsetu í héraðinu. Búsetuskilyrði eru óvíða eins góð á landsbyggðinni. Lögð hefur verið hitaveita á flest heimili í héraðinu, öflugt skólastarf er á öllum skólastigum og sveitarfélagið hefur lagt metnað sinn í að bjóða upp á góða og ódýra þjónustu. Kröftugt atvinnulíf og fjölskrúðugt mannlíf gera Skagafjörð aukin heldur mjög eftirsóknarverðan til búsetu. Skagfirðingar eins og aðrir landsmenn vinna ötulega að því að efla samfélag sitt og láta stjórnvöld ekki bregða fyrir sig fæti í þeim efnum.
Neikvæð orðræða Píratakafteins
Það er grátbroslegt að verða vitni að þeirri hatursorðræðu sem beint er gegn íbúum Skagafjarðar, nú síðast þegar leiðtogi Pírata, Birgitta Jónsdóttir, útmálaði íbúa heils byggðarlags sem glæpahyski þar sem spilling og rotin viðhorf ráði ferð. Ummælin anga af hroka og hleypidómum og er væntalega ætlað að skora nokkur prik fyrir þingmanninn hjá fólki sem nærist á fordómum og öfund gagnvart samfélagi sem þrátt fyrir allt vegnar vel. Nálgun Birgittu er af sama meiði og þegar alhæft er og ráðist að fólki vegna kynþáttar, húðlitar, kynhneigðar, trúarbragða eða lífsviðhorfa. Það eru til stjórnmálasamtök um allan heim sem nærast á slíku. Nú virðast íslenskir píratar ætla að troða þá slóð og afla sér vinsælda með því að níða niður einstök byggðarlög.
Skagfirðingar verja fullveldið
Hvers vegna skyldu Skagfirðingar fara svona í taugarnar á þingmanninum Birgittu? Er það af öfund yfir að við eigum bæði Álftagerðisbræður og Karlakórinn Heimi! Skyldi önnur ástæða vera sú að óvíða er að finna meiri andstöðu við inngöngu Íslands í Evrópusambandið? Margt af því aumara sem sagt hefur verið um íbúa Skagafjarðar síðustu vikur hefur einmitt komið frá fólki sem er fullt örvæntingar og gremju yfir því að ESB-draumurinn heldur áfram að dofna út við hið ysta haf. Skagfirðingar munu standa með fullveldi þjóðarinnar.
Bjarni Jónsson, sveitarstjórnarfulltrúi VG og óháðra, Skagafirði
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.