Hresst upp á minni Haraldar Þórarinssonar – opið bréf

Vegna fréttar sem m.s. birtist hér á Feyki.is í gær þar sem fulltrúar fjölda hestamannafélaga á landinu mótmæltu fyrirhuguðum landsmótsstað áí Reykjavík, þá hefur Haraldur Þórarinsson form. LH svarað henni m.a. á Hestafréttir.is. Jónína Stefánsdóttir formaður Stíganda finnst margt rangt sem kemur fram í svari hans og ritar honum opið bréf.

Sæll Haraldur

Vegna svars þíns við fréttatilkynningu frá Geysi, Léttfeta, Sindra og Stíganda, sé ég mig knúna til þess að leiðrétta nokkrar staðreyndir.  Í fyrsta lagi þá tilkynnti ég starfsmanni L.H. að morgni 4. mars að erindið væri vegna Landsmóts 2012.  Hálfri klukkustund síðar hringir starfsmaðurinn, þá búinn að hafa samband við þig þar sem við (fulltrúar fjögurra hestamannafélaga af Suður- og Norðurlandi) höfðum fengið úthlutaðan fund kl: 15:30 föstudaginn 5. mars.  Um kvöldið hafðir þú síðan samband, sagðist sjálfur vera upptekinn á morgun við önnur verk og enginn gæti mætt úr stjórninni nema kannski ein manneskja.  Þú tjáðir mér að þér þætti miður að geta ekki tekið sjálfur á móti okkur og vildir bjóða okkur í mat eftir helgi.  Ég gerði þér alveg ljóst að tilefnið hafi verið að afhenda ályktanirnar frá hestamannafélögunum. Aldrei minntist þú einu orði á það hver þessi  “önnur verk”  væru sem þú varst skyndilega upptekinn við, enda brá mér mikið þegar ég sá fréttir netmiðlanna daginn eftir um að þú hafir skrifað undir samning varðandi LM 2012 í Reykjavík.  Þá finnst mér skrítið að enginn úr stjórninni hafi getað mætt kl: 15:30 þar sem ég hef fyrir satt að þú hafir fundað með þínum stjórnarmönnum kl: 16:00 þann sama dag.  Einkennilegt finnst mér að þú skulir ekki hafa beðið með stórar ákvarðanir varðandi LM 2012 þar sem þú vissir full vel að þú ættir von á afstöðu frá aðildarfélögum þeirra samtaka sem þú ert í forsvari fyrir.

Jónína Stefánsdóttir formaður Stíganda.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir