Hornfirðingar lögðu Húnvetninga

Akild Di Freitas og Hilmar Þór í leik í fyrra. MYND: ÓAB
Akild Di Freitas og Hilmar Þór í leik í fyrra. MYND: ÓAB

Kormákur/Hvöt spilaði á Hornafirði í dag við lið Sindra í 3. deildinni. Húnvetningar voru í öðru sæti deildarinnar að loknum þremur leikjum en máttu lúta í gras í dag. Lokatölur 2-1.

Lið Kormáks/Hvatar mætti fámennt til leiks, aðeins 14 kappar á skýrslu. Það tók heimamenn dágóðan tíma að brjóta ísinn en fyrsta markið leit dagsins ljós á 42. mínútu og það gerði Lautaro Ezequiel Garcia. Á 80. mínútu var það síðan Blönduósingurinn Kristinn Justiniano Snjólfsson sem gerði sigurmark leiksins og annað mark Sindra en Akil De Freitas klóraði í bakkann með marki á 86. mínútu og þar við sat.

Það er útlit fyrir jafna keppni í 3. deildinni eins og staðan er nú nema hvað að lið Dalvíkur/Reynis er með fullt hús stiga, 12, að fjórum umferðum loknum. Kormákur/Hvöt er um miðja deild með sex stig og á næst leik gegn liði KFS úr Eyjum næstkomandi laugardag en áætlað er að leikurinn fari fram á Blönduósvelli.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir