Hólmfríður Sveinsdóttir ver doktorsritgerð sína

Doktorsnefndin og andmælendur ásamt hinum unga doktor.

Hólmfríður Sveinsdóttir varði doktorsritgerð sína við matvæla- og næringarfræðideild HÍ og kallast hún Rannsóknir á breytileika próteintjáningar í þorsklirfum með aldri og sem viðbrögð við umhverfisþáttum. Hólmfríður vann hluta sinna rannsókna við Háskólann á Hólum og hefur haft aðstöðu í Verinu á Sauðárkróki undanfarin ár.

Leiðbeinandi doktorsverkefnisins var dr. Ágústa Guðmundsdóttir, prófessor en auk hennar sátu í doktorsnefnd þau dr. Bjarnheiður K. Guðmundsdóttir, sérfræðingur við Tilraunastöð Háskóla Íslands að Keldum og aðjúnkt við Læknadeild, dr. Helgi Thorarensen, prófessor við Háskólann á Hólum og dr. Oddur Þ. Vilhelmsson, dósent við Háskólann á Akureyri. Andmælendur voru Albert K. Imsland í Háskólanum í Bergen og Phillip Cash prófessor í Háskólanum í Aberdeen

Ágrip af rannsókn
Rannsóknir sýna að unnt er að auka heilbrigði fisklirfa með ýmsum umhverfisþáttum eins og próteinmeltu og bætibakteríum. Í doktorsverkefninu voru próteinmengjagreiningar notaðar til að fylgjast með breytingum á próteinmengi þorsklirfa með auknum þroska og sem viðbrögð við próteinmeltu- og bætibakteríumeðhöndlun. Áhersla var lögð á greiningu meltingarensímsins trypsíns auk próteina sem tengja má við þroska og ósérhæft ónæmissvar. Niðurstöður rannsóknanna eru kynntar í 5 vísindagreinum og einum bókarkafla. Í ljós kom að trypsín er í lágmarki við upphaf fæðunáms en þá má ætla að mikil þörf sé á meltingu próteina. Umtalsverðar breytingar urðu á magni og afbrigðum fjölda próteina í próteinmengi lirfanna með auknum þroska og sýndu keratín afbrigði mestar aldursháðar breytingar. Helstu prótein, sem greind voru í minna magni í próteinmengi þorsklirfa eftir meðhöndlun með bætibakteríum má tengja við ósérvirkt ónæmissvar. Meirihluti þeirra próteina sem greindust í auknu magni eftir meðhöndlun þorsklirfa með próteinmeltu má tengja við orkubúskap þeirra. Tvö trypsín afbrigði fundust í próteinmengi þorsklirfa. Enginn munur var á magni þessara tveggja trypsín afbrigða í þorsklirfum eftir meðhöndlun þeirra með bætibakteríum eða próteinmeltu.
Helstu niðurstöður
Niðurstöður doktorsverkefnisins eru fyrsta skrefið í uppbyggingu á gagnabanka fyrir próteinmengi þorsklirfa. Þær hafa að geyma mikilvægar upplýsingar um breytileika próteina í próteinmengi þorsklirfa með auknum þroska og sem viðbrögð við breytingum á umhverfisþáttum. Verkefnið var unnið í nánu samstarfi við Raunvísindastofnun Háskólans. Aðrir samstarfsaðilar voru Háskólinn á Hólum, Hafrannsóknastofnun og Háskólinn í Aberdeen í Skotlandi.

Á heimasíðu Hóla óskar Hólafólk Hólmfríði innilega til hamingju og óskar henni alls góðs í framtíðinni. Hún er nú komin í starf hjá Matís og heldur áfram að vinna í Verinu á Sauðárkróki.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir