Hofsós kemst í betra samband

Tæknimenn að störfum. Mynd; Gagnaveitan.is

Tæknimenn frá Tengli ehf. á Sauðárkróki unnu við það í haustblíðunni að setja upp sendi og móttökudisk fyrir örbylgjusamband við Hofsós.  Reiknað er með því að geta flutt 200 Mb samband þessa leið og þarmeð komast viðskiptavinir Gagnaveitunnar á Hofsósi í öruggt og gott samband við umheiminn.
Mikið er um að vera hjá Gagnaveitunni þessa dagana en íbúar í  Hlíðum eru orðnir ansi langeygir eftir því að ljósleiðaragengið haldi innreið sína í hverfið.  Til stóð að byrja að draga í rörin í vor, en það hefur reynst erfiðara en upphaflega stóð til að fjármagna svo umfangsmikið verkefni.  Stjórn félagsins leitar allra leiða að leysa það og er von til að það gangi eftir áður en að það frystir aftur í haust.

Lagnaefni fyrir Akrahrepp er komið til landsins og er væntanlegt norður næstu daga.  Starfsmenn Tengils á Sauðárkróki eru að gera sig klára fyrir ídráttinn og ef að allt gengur vel ættu Blöndhlíðingar allir að hafa aðgang að ljósleiðara á heimili sínu fyrir jól, og komast þar með í félagskap með ekki ómerkari sveitarfélögum en Seltjarnarneskaupstað sem, fyrir aðeins 2 árum, var fyrsta sveitarfélag í heiminum sem gat boðið öllum sínum íbúum uppá aðgang að ljósleiðaraneti. 

Tæknimenn Gagnaveitunnar eru að setja upp öflugt örbylgjusamband við Hofsós.  Með því verður hægt að tryggja stofnunum og fyrirtækjum háhraða netsamband með bestu gæðum, og þá skapast grundvöllur fyrir því að tengja heimilin gegnum rörin sem voru lögð með hitaveitunni um árið, en það er þó á langtímaáætlun eins og staðan er í dag.

Búið er að setja upp sendibúnað á Bókasafnið á Steinstöðum, en hann á að þjóna íbúum í hverfinu.  Þetta er hluti af dreifbýlisverkefninu og er boðið uppá internetsamband frá Fjölnet á Sauðárkróki.  Hægt verður að taka á móti sambandi frá þessum sendi með venjulegri fartölvu, þannig að það má fara milli húsa án þess að detta úr netsambandi. Þetta er stundum kallað "Hot Spot" eða "Heitur reitur" og hvar á það betur við en á Steinstöðum þar sem að gufan stígur upp um hverja glufu!

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir