Hofsbót vill tvær milljónir á næsta ári til undirbúnings byggingar íþróttahúss
Hofsbót ses. hefur óskað eftir því við sveitarfélagið Skagafjörð að gert verði ráð fyrir tveggja milljón króna framlagi á fjárhagsáætlun 2010 til undirbúnings framkvæmd á byggingu íþróttahúss á Hofsósi. Einnig óskar stjórn Hofsbótar ses. eftir áframhaldandi viðræðum um málið samkvæmt fyrri samþykktum byggðarráðs Skagafjarðar.
Meirihluti byggðarráðs samþykkti á fundi sínum að vísa erindinu til félags- og tómstundanefndar og gerðar fjárhagsáætlunar 2010. Jafnframt er nefndinni falið að afla frekari upplýsinga um hvað liggi að baki umbeðinni fjárhæð.
Páll Dagbjartsson óskaði bókað: "Miðað við þær umræður sem fram hafa farið á milli byggðarráðs og fulltrúa Hofsbótar ses. um byggingu íþróttahúss á Hofsósi finnst mér eðlilegt að sveitarfélagið leggi fram fé á árinu 2010 til frekari undirbúnings framkvæmdarinnar og tel ég beiðni Hofsbótar ses. mjög í hóf stillt."
Þá óskaði Bjarni Jónsson bókað. "Undirritaður styður erindi Hofsbótar og telur að meirihluti byggðarráðs sé enn einu sinni að reyna að svæfa umræðu um íþróttahús með afgreiðslu sinni, líkt og fyrr á árinu þegar sama mál var til umfjöllunar og vísað til félags- og tómstundanefndar. Réttara væri að taka málið strax til raunhæfrar skoðunar með heimafólki og gera ráð fyrir þeirri
úttekt í fjárhagsáætlun ársins 2010."
Þórdís Friðbjörnsdóttir og Gréta Sjöfn Guðmundsdóttir óska bókað: "Meirihluti byggðarráðs vísar í bókun 486. fundar ráðsins um málið og ítrekar mikilvægi þess að ákvörðun um byggingu íþróttahúss á Hofsósi tengist vinnu sveitarfélagins að þarfagreiningu og stefnumörkun sveitarstjórnar í uppbyggingu íþróttamannvirkja og forgangsröðun fjárfestingaverkefna til framtíðar litið. Því er eðlilegt að erindinu sé vísað til félags- og tómstundanefndar á þessu stigi málsins."
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.