Hlúum að atvinnulífinu

Ásbjörn Óttarsson 1. þingmaður kjördæmisins

Nú liggur það fyrir að ríkisstjórnin er algjörlega ófær um að leiða þjóðina í gegnum þá erfiðleika sem hún er nú í. Einu úrræðin sem ríkisstjórnin lætur koma sér til hugar er að hækka skatta á fjölskyldur og fyrirtæki í landinu og skerða bætur öryrkja og ellilífeyrisþega. Hér er illilega vegið að innviðum samfélagsins, af sitjandi ríkisstjórn og er gert af fullkomnu ábyrgðarleysi og ekki síst aðgerðarleysi gangvart þeim vandamálum sem bregðast þarf við strax.

Það sem þarf er að gefa fjölskyldum og fyrirtækjum í landinu von og það er gert með því að styðja við atvinnulífið með ráð og dáð.  Án öflugs atvinnulífs mun þjóðin ekki getað leyst sig úr þeim skuldafjötrum sem á hana hafa verið lagðar. Það er því gríðarlega mikilvægt  að ríkisstjórnin hætti að leggja stein í götu þeirra sem standa í atvinnurekstri.  Það er þyngra en tárum tekur að sjá hvernig unnið er á móti þeim sem vilja koma með erlent fjármagn inn í landið til að  ljúka þeirri uppbyggingju á stóriðju sem þegar er hafin. Það sýnir ekki vilja ríkisstjórnarinnar til að leysa vanda þjóðarinnar, þar ráða einkennileg sjónarmið för.  

Auk uppbyggingar stóriðju er það lífsnauðsynlegt að bæta strax við veiðiheimildir. Samdráttur á þeim er náðarhögg fyrir fjölmörg samfélög allt í kringum landið og við Íslendingar höfum ekki efni á því nú að nýta ekki auðlindir okkar eins og mögulegt er. Aukning á aflaheimildum munu  skila okkur 33 milljörðum í útflugningstekjur og ekki veitir af. Lítum á hvernig þessar tölur skiptast og er miðað við fyrirliggjandi verð á afurðunum: 

  • 40 þúsund tonn af þorski skila 18 milljörðum í útflutnings tekjur.
  • 7 þúsund  tonn af ýsu sem skila 1,9 milljarði í útflutningstekjur.
  • 15 þúsund  tonn af ufsa sem skila 2,5 milljörðum í útflutningstekjur.
  • 3 þúsund tonn af grálúðu sem skila 2 milljörðum í útflutninstekjur.
  • 1,5 þúsund tonn af skötusel sem skila 750 milljónum í útflutningstekjur.
  • Þá þarf að stöðva strax þá sóun verðmæta sem á sér stað í veiðum á makríl og skylda þá sem þær stunda að vinna hann til manneldis, þannig er hægt að  auka aflaverðmætið um 8 milljarða.

Samtals myndu þessar aðgerðir skila okkur uþb 33 milljörðum í auknar útflutningstekjur. Eitthvað sem okkur sárvantar núna. Margfeldisáhrifin af þessum aðgerðum myndu, gróflega reiknað, skila 100 milljörðum inn í hagkerfið. Er ekki ábyrgðarlaust að gera þetta ekki?

Nú á þeim erfiðu tímum sem íslenska þjóðin glímir nú við er það lífsnauðsynlegt að hlúa  að öllum þeim möguleikum sem landið hefur til uppbyggingar á atvinnutækifærum, jafnt stórum sem smáum. Sjálfstæðisflokkurinn kynnti í síðustu viku tillögur sínar um hvernig eigi að bregast við bráðavanda í efnahagsmálum. Ein af hugmyndunum þeirra tillagna er að hlúa að atvinnulífinu og forðast skattahækkanir, jafnt á fjölskyldur sem fyrirtæki. Það er ekki hægt að endurreisa atvinnulífið með því að leggja á það auknar byrgðar í formi skatta.

Ríkisstjórnin hefur sýnt fáheyrt ábyrgðarleysi með aðgerðum eða aðgerðarleysi sínu. Ef atvinnulífið verður ekki stutt þá munu heimilin ekki neina björg sér geta veitt og grunnstoðum samfélagsins þannig kippt í burtu. Sterkt atvinnulíf færir auknar tekjur í ríkissjóð. Það gerir okkur kleift að vinna okkur út úr þeim vanda sem til staðar er og það þarf að gerast strax.   

 

Ásbjörn Óttarsson.

Höfundur er alþingismaður.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir