Hjördís Pálsdóttir býður sig fram í forvali VG
Ég undirrituð, Hjördís Pálsdóttir í Stykkishólmi, hef ákveðið að bjóða mig fram í 5. - 7. sæti í forvali Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi Alþingiskosningar.
Ég er fædd árið 1986 í Stykkishólmi og ólst þar upp en á ættir mínar að rekja meðal annars í Staðarsveit, Reykhólasveit og á Blönduós. Ég lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Snæfellinga, er með BA gráðu í þjóðfræði og MA gráðu í hagnýtri menningarmiðlun – bæði frá Háskóla Íslands. Undanfarin tvö ár hef ég starfað sem safnstjóri Norska hússins – Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla í Stykkishólmi.
Ég hef lengi haft áhuga á stjórnmálum og þá sérstaklega umhverfismálum og náttúruvernd, málefnum innflytjenda, menningu og nýsköpun sem og bættum hag íslensks almennings.
Ég vil taka þátt í því að stjórnmálaumræða sé jákvæð og uppbyggjandi og að við sem samfélag tökumst á við þær áskoranir sem við stöndum frammi fyrir á lausnamiðaðan hátt.
Þeir sem gerast félagar fyrir 21. ágúst, eru 16 ára og eldri og eiga lögheimili í Norðvesturkjördæmi hafa kosningarétt í forvalinu. Forvalið fer fram dagana 31. ágúst - 5. september.
Hjördís Pálsdóttir
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.