Hitinn nánast óbærilegur
Þuríður Harpa heldur áfram að leyfa okkur að fylgjast með ferð hennar til Delhí en þegar hér er komið sögu hefur Þuríður fengið sína fyrstu stofnfrumusprautu. Líkt og áður lýsir hún fábrotnum aðstæðum á Indlandi. Hægt er að styrkja ferð Þuríðar inni á heimasíðu hennar www.oskasteinn.com
Dagur 3
Ég vaknaði rennsveitt, náði varla andanum og reyndi að kveikja ljós, ekkert gerðist, hitinn var óbærilegur, ég gólaði á Árna sem lá örugglega í hitadái á gólfinu, að vakna. Hann þeyttist upp og spurði hvað amaði að. Loftkælingin er slökkt og ekkert rafmagn á herberginu, hvæsti ég. Ég held ég drepist, Árni staulaðist upp og þreifaði sig fram að dyrum, frammi var ljós en engar hjúkkur, ég ýtti á bjölluna sem gargaði frammi á gangi. Eftir smástund birtust tvær litlar hnátur, ég útskýrði að ekkert rafmagn væri á herberginu. Klukkan er þrjú svöruðu þær, við getum ekki fengið neinn til að laga þetta fyrr en á morgunn. Á morgun verð ég dauð úr hitaslagi ef þið gerið ekki eitthvað í þessu -loftkælingin er ekki virk, þessu hvæsti ég út úr mér á bjagaðri ensku. Þær böbluðu eitthvað og sögðust svo sækja næturvörðinn. Hann kom eftir stutta stund, sló inn rafmagninu, kveikti á lofkælingunni sem sló strax út. Svona gekk þetta nokkra stund þar til hann sagði að ekki væri hægt að laga þetta fyrr en morguninn eftir. Svo brosti hann og benti á viftuna, hún var í lagi, hann stillti hana á fullt. Brjálað rok varð í herberginu sem vissulega var svalandi en ég var skíthrædd um þyrlan myndi þeytast af í öllum hamaganginum og í okkur. Ég bar þetta undir næturvörðinn sem fullvissaði mig brosandi um að þetta yrði í lagi. Með það fórum við aftur að sofa í hávaða roki. Við vorum örugglega nýsofnuð þegar vekjarinn fór í gang - klukkan var sjö og tími komin á þvagprufuna. Árni druslaði mér á klósettið sem eins og áður hefur komið fram er ekki ætlað fólki í hjólastól þannig að lúxus eins og að athafna sig sjálfur á baðberberginu er ekki inn í myndinni hér. Klukkan hálfátta mættu hjúkkurnar tóku blóðprufu og þvagprufu og mældu púlsinn. Við helltum á könnuna -guðiséloffyrirkaffieinsogheima- síðan var verkefni dagsins að reyna að fá rafmagnsviðgerðarmann til að laga loftkælitækið. Okkur var sagt að bíða í hálftíma, eftir klukkutíma hafði ekkert gerst og okkur sagt að bíða aftur í hálftíma, ég ákvað að kíkja á Herdísi og athuga hvort hægt væri að anda í gluggalausu kompunni sem hún gisti í. Árni varð eftir til að eiga við rafmagnskallinn ef hann kæmi. Niðri hjá Herdísi var svalt og gott. Um hádegi var rafmagnskallinn ekki enn komin þannig að við vorum færð í annað herbergi til bráðabirgða þar snæddum við undarlegan hádegismat eða harðsoðin djúpsteikt egg í einhverju gutli. Kl. hálftvö var fyrsti endurhæfingatíminn. Við Herdís mættum niður, mér var bent á að fara upp á einn af háu bekkjunum með þykku dýnunum, ég horfði á sjúkraþjálfarann og sagði að þetta kæmist ég aldrei. Hún kallaði þá í aðstoð og minnsti kallinn í húsinu, litlu hærri en ég þegar ég sit mætti á svæðið til að henda mér upp á bekkinn. Ég spurði hvernig í ósköpunum þetta ætti að ganga upp, þá var annar kall svoldið stærri en óttalegt strá fenginn til liðs við þann stutta og viti menn þeir bara vippuðu mér upp á dýnuna. Síðan byrjuðu æfingarnar sjúkraþjálfinn sem á að vera með mig næstu tvær vikurnar hefur unnið sem slíkur í eitt ár. Hún réðst á fæturnar á mér teygði þær og togaði, snéri fætinum næstum við um öklann og hamaðist með lappirnar á mér sundur og saman upp og niður. Svo skipaði hún mér að hreyfa þær, ég reynda af mikilli samviskusemi að hreyfa fæturna en ekkert gerðist þá hreyfði hún fótinn og sagði mér að lyfta honum og láta hann síga til skiptis en hún framkvæmdi hreyfinguna. Vissulega gott mál og ég var orðin kófsveitt af rembingi við að reyna að hreyfa fæturna eins og hún vildi. Eftir æfinguna hafði Herdís á orði að henni hefði fundist farið af stað með offorsi. Ég gat alveg verið sammála henni og skoðaði hvort fæturnir snéru ekki örugglega rétt um öklana - hvort þeir snéru nokkuð aftur en ekki fram svona djust in keis.
Á meðan ég var á bekknum kom Geeta Shroff inn hún spurði spurninga og bauð mig velkomna, sagði mér svo að tvennt gæti ég verið viss um 1. var að indverjarnir myndu koma mjög opinskátt fram við mig og ég yrði bara að þola það og 2. var að þau mættu aldrei á réttum tíma. Svo brosti hún og bað aðstoðarkonu að mynda fyrsta tímann minn þannig að hægt væri seinna að sjá hver árangurinn yrði.
Þegar upp á herbergi kom var rafmagnsmaðurinn að klára viðgerðina, þá átti eftir að skúra. Skúringarnar fara þannig fram hér að inn hríslast horaður karlmaður með klósettbursta, þvottaklúta, gólfdulu og þvegil og á eftir honum kemur kona sem stendur yfir kallinum allan tímann sem hann er að skúra og skipar honum að gera betur ef henni finnst eitthvað að. Ótrúlegt kerfi sem ég er þó afskaplega ánægð með, að vísu mætti konan kenna kallinum betur á skúringagræjuna. Eftir þrif skreið ég upp í rúm enda hafði ég átt erviða nótt. Árni og Herdís ætluðu að leita að súpermarkaðnum sem var að sögn annarra gesta hér mjög skrautlegur. Í því að þau eru að fara út úr dyrunum stoppar hjúkkan þau og segir að ég eigi eftir að fara í ómskoðun, hjartalínurit og eitthvað fleira á hinu sjúkrahúsinu og einhver verði að fara með mér og já við áttum að borga eitthvað fyrir þetta. Sjúkrabíllinn biði niðri. Það var bara ekkert annað, þurfti að senda mig með sjúkrabíl nöldraði ég. Við fórum niður og þvílíkur sjúkrabíll eða hitt þó heldur þetta var lítill bíll svipaður Fiat Punto sem við tróðumst inní. Og enn áttum við ævintýraferð um götur Delhí þar sem alltof margir akandi voru á alltof mjóum götum. Loks renndi hann upp að inngangi inn á sjúkrahúsið, eitthvað sem líktist helst vörumóttöku frá 1970. Við komum okkur út í hitasvækjuna og inn í afgreiðsluna sem var við fyrstu sýn ok en full af fólki og verulega vondri lykt. Indverji kom og keyrði mig í stæði beint á móti fullorðnum manni sem lá á börum þarna í biðsalnum. Hann var vafinn vinstra megin bæði fótur og handleggur. Herdís fór í afgreiðsluna að útskýra afhverju við værum þarna. Á meðan litaðist ég um, og smásaman fann ég sjokktilfinninguna streyma um mig alla, allt var skítugt og sjabbí og starfsfólkið óskaplega ótrúverðugt. Ég hlaut að verða færð upp á einhverja betri hæð í þessar myndatökur. Herdís kom og með henni stelpa sem sagði okkur að koma á eftir sér hún rigsaði svo út í hitann og við á eftir og inn til hliðar við afgreiðsluna þar rétt fyrir innan opnaði hún hurð að smákompu. Við kíktum inn ó mæ gad hvað er þetta sagði ég við Herdísi, henni var jafn brugðið og mér, upp við vegginn var samanrekinn bekkur alltof hár og tröppur upp í hann til hliðar var fornfálegt tæki til ómskoðunar. Læknir var inn af kompunni, starfstúlkan reif upp hurðina inn til læknisins og bablaði eitthvað síðan lokaði hún hurðinni og setti fjárhúslokuna fyrir svo læknirinn kæmist ekki út svo lokaði hún okkur inn í kompunni og rétti mér bláan slopp, skipaði mér að afklæðast og fara í sloppinn. Er þetta nú nauðsynlegt tautaði ég meðan Herdís hjálpaði mér úr og í sloppinn að því búnu benti stúlkan mér að hafa mig upp á bekkinn. Ég góndi hana og gerði henni skiljanlegt að þarna upp kæmist ég ekki. Hún opnaði þá fram og ætlaði að fá einhverja starfsmenn til að lyfta mér Árni stoppaði það strax og lyfti mér upp. Opnað var fyrir lækninum og hann kom inn bað mig að leggjast á hliðina, Mér var lífsins ómögulegt að snúa mér á þessu priki og kom Herdís til hjálpar þar, síðan reyndi ég að ríg halda mér þannig að ég dytti ekki aftur á bak niður á gólf. Veggurinn var svartur af skít og drullu og koddinn á bekknum illa lyktandi. Læknirinn klíndi mig alla út í geli og skrunaði svo af stað á vömbinni á mér og aftur á bakið. Eftir nokkra stund var þetta afstaðið og ég mátti þurrka mér og fara í fötin. Við vorum í sjokki öll þrjú yfir aðstæðum og aðbúnaði þessa sjúkrahúss. Starfsstúlkan brunaði okkur aftur inn í biðsalinn þar tók við okkur fýlulegur ungur maður sem spurði tilhvers ég væri þarna. Herdís útskýrði fyrir honum hvað ætti að gera. Hann vísaði okkur inn í aðra kompu með fornfálegum röntgenbekk, kompu sem var svo skítug og mikil ruslastía að manni féllust alveg hendur. Jebb þarna átti ég aftur að afklæðast og fara í slopp. Mér var farið að renna í skap, hafði verið nauðsynlegt að láta mig fara aftur í fötin áðan, hefði ekki verið gáfulegra að ég mætti bara í bláu druslunni þarna inn, og enn þurfti Árni að lyfta mér upp á himinháan bekk. Þar var fyrst tekin mynd þar sem ég lá ofan á röntgenplötunni. Síðan snéri ungi maðurinn skrapatólinu á hlið til að taka mynd af hliðinni á mér, svo kallaði hann á tvo aðstoðarmenn annar var settur í svuntu og átti hann að halda myndaplötunni til hliðar við mig og hinn hjálpaði til við að stilla af. Svo var mér sagt að draga inn andann og smellt af. Ungi fýldi maðurinn fór með plötuna en kom fljótt aftur og sagðist þurfa að taka aðra þar sem þessi hafði eyðilagst og ég átti að vanda mig að anda á réttu augnabliki, ég snögg reiddist og sagði nokkur vel valin orð á kjarnyrtri íslensku. Datt manninum ekki í hug að maðurinn sem hélt plötunni hefði kannski verið eitthvað skjálfhentur. Önnur mynd var tekin og nú var hún í lagi. Árni hjálpaði mér niður í stólinn og nú átti ég að klæða mig aftur, Herdís sagðist halda að hjartalínuritið væri enn eftir þannig að ég sagði sloppakonunni að ég skipti ekki aftur um föt fyrir næstu myndatöku, hún sagði okkur búin þannig að ég mátti koma mér í fötin aftur og naut eins og áður aðstoðar Herdísar. Við forðuðum okkur út úr þessu húsi dauðfegin að sleppa. Bílstjórinn beið eftir okkur og enn var mér druslað inn í alltof lítinn bíl, ég gat ekki varist þeirri tilfinningu að finnast ég hafa verið niðurlægð á einhvern hátt, einhvernveginn hafði mér verið misboðið mér fannst þetta allt vera skrípaleikur og var alvarlega farin að hugsa um að koma mér heim, ég fann hvernig grátkökkurinn settist að í hálsinum. Út í hvað var ég eiginlega að fara? Og út í hvað var ég búin að draga Árna og Herdísi? Mér var eiginlega allri lokið. Þegar við komum yfir á hjúkrunarheimilið langaði okkur mest að komast í sturtu og þrífa af okkur þessa ömurlegu upplifun. Þegar við komum inn á herbergið kom læknir með sprautu og sagði niðurstöður úr rannsóknum morgunsins vera í fínu lagi og nú fengi ég fyrstu stofnfrumusprautuna. Eftir hana mátti ég ekki fara í bað í 3 klst. Þar með var það úti. Ég brölti upp í rúm og þáði sprautuna. Þrem tímum seinna var svo langþráð sturtustund runnin upp og svo loks í bólið - morguninn eftir átti ég að mæta hjá einhverjum doktor út í bæ sem átti að ómskoða lifur, nýru og maga og ég mátti allsekki pissa fyrr en það væri afstaðið, eins og ég gæti stjórnað því. Mikið varð ég fegin þegar þessi dagur var búin.
Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.
Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.
Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.