Hinn svali blær kominn út

Komin er út ný bók frá Lafleur útgáfunni. Bókin ber titilinn: Hinn svali blær og er eftir Benedikt S. Lafleur. Hér er á ferðinni greinasafn, sem inniheldur 19 greinar. Bókin skiptist í 3 hluta eftir efni greinanna:

  • I. Bókmenntir og heimspeki
  • II. Á vit annarra landa
  • III. Hugsjónir og andleg sýn

Í fyrsta hlutanum fjallar höfundur um ýmsar þekktar bókmenntaperlur, stundum á mjög frumlegan og nýstárlegan hátt, t.d. í greininni um Gúllíver eða um Gretti Ásmundsson, þar sem hann finnur gjarna samfélagslega skírskotun í erindi þessara bókmenntaverka í nútímanum. Í öðrum hlutanum fjallar höfundur um ferðir sínar til fjarlægra landa, upplifanir sínar þar og reynslu. Bæði í fyrsta og öðrum hlutanum fjallar höfundur gjarna um breyskleika mannsins, takmarkanir hans, veikleika og mistök, en einnig möguleika hans í hörðum og hverfulum heimi. Í þriðja hlutanum leitar höfundur frekar svara við ógöngum mannsins og finnur lausnina í nýrri andlegri nálgun. Upp úr hefðbundnum trúarbrögðum uppgötvar höfundur samflot vísindanna með trúarlegri reynslu spámanna í býsna öflugu hugleiðslukerfi sem sérhver maður getur tileinkað sér án kostnaðar og án þess að þurfa að setja sig í einhverja erfiða stellingu eða taka upp eitthvert ofurheilbrigt líferni...

Í síðustu greinum bókarinnar finnur höfundur þannig lausn á þjáningu heimsins og um leið á eigin sálarkreppu og þrotlausa leit að tilgangi lífsins. Þessa lausn vill höfundur ekki aðeins koma á framæri heldur deila með öðrum í krafti þeirra pælinga sem þegar koma fyrir í bókinni.

Hverjum kafla fylgja myndir eftir Guðmund Björgvinsson myndlistarmann, en myndir eftir listamanninn prýða einnig kápu bókarinnar. Bókin er 197 bls. í smekklegri kilju.

Athugasemdir eru á ábyrgð þeirra sem þær skrá.

Feykir áskilur sér þó rétt til að eyða ummælum sem metin verða sem ærumeiðandi eða ósæmileg.

Smelltu hér til að tilkynna óviðeigandi athugasemdir.

Fleiri fréttir